„Held að þetta eigi bara eftir að versna“

Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Björgunarsveitin Strákar á Siglufirði hefur farið í eitt útkall það sem af er degi en bíll fauk út af veginum skammt frá flugvellinum, innst í firðinum. Ekki urðu slys á fólki og bíllinn er ekki skemmdur.

„Þetta var aðallega út af því að það var svo rosalega mikill krapi á veginum. Bíllinn fauk eða rann úr krapinu og út af. Við komum bílnum upp á veg aftur,“ segir björgunarsveitarmaðurinn Magnús Magnússon við mbl.is.

Björgunarsveitarmenn á Siglufirði eru mættir í hús og undirbúa verkefni sem gætu komið upp í dag. 

„Við erum klárir ef eitthvað gerist,“ segir Magnús en hvasst er á svæðinu og búið er að loka Siglufjarðarvegi.

„Það er hvasst og snjórinn er rosalega blautur. Ég held að þetta eigi bara eftir að versna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert