Hola íslenskra fræða heyrir sögunni til

Framkvæmdir eru aðeins á undan áætlun við Hús íslenskra fræða.
Framkvæmdir eru aðeins á undan áætlun við Hús íslenskra fræða. Ljósmynd/Aðsend

„Hola íslenskra fræða er ekki lengur til. Í staðinn er kominn kjallari byggingarinnar þar sem meðal annars sjálft handritasafn Árnastofnunar verður varðveitt,“ segir Karl Pétur Jónsson, verkefnastjóri útgáfu- og upplýsingamála hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.

Þetta sést glöggt á meðfylgjandi mynd sem var tekin rétt rúmlega tíu í morgun. Til hliðar við grunninn stendur bílakjallari sem mun mynda undirstöðu tjarnar.

Framkvæmdir við húsið hafa vægast sagt dregist ákaflega lengi. Til að gera langa sögu stutta var upphaflega efnt til samkeppni um Hús íslenskra fræða árið 2008 þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var menntamálaráðherra. Skömmu seinna skall hrunið á með tilheyrandi afleiðingum en fyrsta skóflu­stung­an var tek­in 2013. Ístak verk­tak­ar tóku við fram­kvæmd­inni eft­ir að hafa boðið lægst í útboði í fe­brú­ar á þessu ári. Nú er búið að fylla upp í holuna sem lengi gapti tóm og ekkert bendir til annars en áfram verði haldið þar til húsið verður tekið í notkun eftir rúm þrjú ár.   

Á þessu tæpa ári hafa framkvæmdir gengið vægast sagt mjög vel og er verkið núna aðeins á undan áætlun. Prýðilegt veður það sem af er vetri, þar til í dag, hefur auðveldað verkið. Uppsteypan hefur gengið vel en óvenjumikið hægviðri hefur verið í haust og vetur, að sögn Karls Péturs. 

Áætluð verklok eru árið 2023. Reiknað er með að húsið verði tekið í notkun eftir sumarið það ár. Reiknað er með að strax næsta sumar verði fyrsta hæðin risin og í lok sumars verður megnið af húsinu risið. 

Undanfarið hafa að jafnaði verið um 50 manns að störfum á svæðinu. Nú þegar hafa um 1.500 rúmmetrar af steypu farið í kjallara aðalbyggingar og bílakjallarann. Er það um fjórðungur þeirrar steypu sem fara mun í bygginguna.

„Þetta er mjög flókin bygging. Það mun taka langan tíma að klára,“ segir Karl Pétur. 

Í meðfylgjandi myndbandi er Árnastofnun heimsótt og viðtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Guðrúnu Nordal, forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.  

mbl.is