Í viðbragðsstöðu á Austurlandi

Aðgerðastjórnir á Austurlandi eru í viðbragðsstöðu vegna norðaustanstorms sem þar gengur yfir í nótt og í fyrramálið. Samkvæmt varðstjóra hjá lögreglunni á Egilsstöðum hefur verið rólegt þar sem af er kvöldi.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni verður ekkert ferðaveður í umdæminu á morgun og lokanir víðtækar. Eru íbúar svæðisins hvattir til þess að fylgjast með veðurspám og tilkynningum og að vera ekki á ferðinni nema af brýnni nauðsyn.

Þá eru foreldrar hvattir til að fylgjast með tilkynningum um skólahald, en forseti bæjarstjórnar í Fljótsdalshéraði greindi frá því á Facebook fyrr í kvöld að tekin hefði verið ákvörðun um að aflýsa skólahaldi í héraðinu.

Appelsínugul viðvörun er í gildi á svæðinu frá kl. 8 í fyrramálið og til kl. 22 annað kvöld.mbl.is