„Mjúkar lokanir“ á Mosfells- og Lyngdalsheiði

Björgunarsveitarfólk er við lokunarpósta á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Veður er …
Björgunarsveitarfólk er við lokunarpósta á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Veður er farið að versna og heiðunum verður alfarið lokað síðar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði hefur verið lokað vegna veðurs. Björgunarsveitir eru við lokunarpósta og ræða við vegfarendur. Um svokallaðar „mjúkar lokanir“ er að ræða að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. 

„Það er ekki búið að setja skilti fyrir veginn en það eru hópar frá okkur sem eru að upplýsa fólk um stöðuna og fylgjast með og eru klárir þegar veðrið versnar og þá mun Vegagerðin taka ákvörðun um að loka veginum alveg,“ segir Davíð í samtali við mbl.is. 

Engin útköll enn sem komið er

Engin útköll hafa borist til björgunarsveita enn sem komið er en björgunarsveitarfólk er í viðbragðsstöðu víða um land. Davíð segir jafn mikinn undirbúning og verið hefur síðasta sólarhring vegna yfirvofandi aftakaveðurs ekki algengan og man hann ekki eftir því að tæki líkt og snjóbílar hafi verið send landshluta á milli. 

Undirbúningurinn hefur fyrst og fremst falist í því að koma upplýsingum áleiðis til ferðamanna. Þá beina björgunarsveitir því til almennings að fylgjast vel með veðurspá og færð og halda sig innandyra á meðan versta veðrið gengur yfir.

Björgunarsveitarfólk er við lokunarpósta á Mosfells- og Lyngdalsheiði og ræðir …
Björgunarsveitarfólk er við lokunarpósta á Mosfells- og Lyngdalsheiði og ræðir við vegfarendur. Búast má við að heiðunum verði alfarið lokað þegar líða fer á daginn. Kort/Vegagerðin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert