Neyðarskýli opnuð fyrr vegna veðurs

Konukot opnar fyrr í dag.
Konukot opnar fyrr í dag. Ljósmynd/Sigurgeir Sigurðsson

Þrjú neyðarskýli borgarinnar, Konukot og gistiskýlin við Lindargötu og Grandagarð, verða opnuð fyrr í dag en vanalega, eða klukkan 14, vegna veðurofsans sem spáð er eftir hádegi.

Vonskuveður verður um allt land í dag og á morgun en appelsínugul viðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan þrjú í dag.

Þá er bent á að þjónusta Frú Ragnheiðar muni að öllum líkindum skerðast í kvöld vegna veðurs.

Eins og áður kom fram eru foreldrar og forráðamenn barna beðnir að sækja börn sín strax að skóladegi loknum til að tryggt sé að allir, börn, foreldar og starfsfólk, geti náð heim til sín áður en veðrið skellur á. Foreldrar leikskólabarna sæki börn sín fyrir kl. 15.  

Allt frístunda- og félagsmiðstöðvastarf í Reykjavík fellur niður svo og starf skólahljómsveita. Akstursþjónusta fatlaðra mun aka heim þeim skólabörnum sem þeirrar þjónustu njóta, strax að loknum skóladegi.

Þá verða sundlaugar, útibú Borgarbókasafnsins og söfn á vegum Reykjavíkurborgar lokuð eftir kl. 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert