Reynitré féll á tvo bíla í Vesturbænum

Tréð ofan á bílnum hennar Kristínar.
Tréð ofan á bílnum hennar Kristínar. Ljósmynd/Kristín Waage

Stórt reynitré féll á tvo bíla við Sólvallagötu í Vesturbænum upp úr klukkan 20 í kvöld.

Kristín Waage, sem býr við götuna, er eigandi annars þeirra. Hún kom auga á það sem hafði gerst fyrir tilviljun þegar hún var að opna hjá sér kjallaragluggann.

Slökkviliðið var þá mætt á staðinn og allt var uppljómað í götunni. Þegar mbl.is ræddi við Kristínu var slökkviliðið að taka niður annað tré sem stóð við hliðina á því sem féll. Trén stóðu saman við húsið á móti hennar og giskar hún á að þau séu 12 til 14 metra há.

Slökkviliðið að störfum við að fella hitt tréð.
Slökkviliðið að störfum við að fella hitt tréð. Ljósmynd/Kristín Waage

Engar rúður brotnuðu í bíl Kristínar en líklega rispaðist hann eitthvað. Hún telur að hinn bíllinn sem varð fyrir trénu hafi farið verr út úr óhappinu.

„Þetta er svo skjólsæl gata og maður verður voðalega sjaldan var við veður en það hvein pínulítið í dag,“ segir hún og telur að húddið á hinum bílnum hafi beyglast enda féll stofn trésins þangað niður.

„Ég hef áhyggjur af því hvort tryggingarnar muni dekka þetta,“ segir Kristín.

Ljósmynd/Kristín Waage
mbl.is