Rúmlega 200 verkefni í dag

Björgunarsveitarfólk á ferðinni.
Björgunarsveitarfólk á ferðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgunarsveitarmenn á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjörg hafa farið í rúmlega tvö hundruð verkefni það sem af er degi víðs vegar um landið.

Yfir 500 manns hafa staðið vaktina. Mest hefur verið um fok á lausamunum og aðstoð við íbúa. Björgunarsveitir hafa einnig aðstoðað heilbrigðisstarfsfólk við að flytja sjúklinga á milli staða og einnig fólk til og frá vinnu, aðallega á Norðurlandi.

Dagurinn byrjaði rólega. Mest var um að vera á Norðurlandi, aðallega í kringum Tröllaskaga. Töluvert af verkefnum var í Eyjafirði eftir hádegi, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Voru þau fleiri en búist var við.

Seinnipartinn í dag var meira að gera á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi. Fáir voru þó á ferðinni og greinilegt að fólk og fyrirtæki hafa tekið mark á viðvörunum, sem er hið besta mál að sögn Davíðs Más. Hvetur hann fólk til að fylgjast áfram með tilkynningum og fréttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert