„Stöndum okkar plikt“

Tveir snjóbílar voru í gærkvöldi sendir úr Reykjavík norður í …
Tveir snjóbílar voru í gærkvöldi sendir úr Reykjavík norður í land. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við stöndum okkar plikt,“ segir Ármann Gunnarsson á Siglufirði, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, segir: „Við höfum ekki fengið svona viðvörun áður, en ég vona að við séum í stakk búnir til að takast á við þetta.“ Báðir ræða um óveðrið sem spáð er í dag.

Versta veðrinu er spáð á spásvæðinu Strandir og Norðurland vestra, ofsaveðri sem kallar á rauða viðvörun frá klukkan 17 í dag og fram yfir miðnætti. Er þetta í fyrsta skipti sem Veðurstofan gefur út viðvörun á hæsta stigi síðan byrjað var að gefa út litamerktar veðurviðvaranir fyrir tveimur árum. Í allan dag og fram að hádegi á morgun verður norðan stórhríð, þótt ekki sé hæsta viðvörun í gildi nema hluta tímans. Auk óveðursins lýsti Veðurstofan yfir óvissuástandi vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi.

Engir skólar eða leikskólar verða starfandi í Skagafirði í dag og íþróttamannvirki eru lokuð. Sama á við mörg önnur sveitarfélög. Búist er við mikilli ofankomu og að vegir lokist þannig að fólk verði innilokað. Íbúum er ráðlagt að halda kyrru fyrir.

Börnin verði sótt í skóla

Ríkislögreglustjóri og allir lögreglustjórar landsins lýstu yfir óvissustigi almannavarna á landinu, í takti við veðurspá. Búist er við víðtækum truflunum á samgöngum um allt land í dag og í fyrramálið. Vegum að höfuðborgarsvæðinu verður lokað í varúðarskyni og það sama á við um vegi víða um land. Millilandaflug og innanlandsflug fellur niður síðdegis.

Skóla- og frístundastarf í Reykjavík mun raskast frá hádegi í dag. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg er fólki ráðlagt að vera ekki á ferli eftir klukkan 15. Foreldrar og forráðamenn barna eru beðnir um að sækja börn sín strax að skóladegi loknum. Svipaðar tilkynningar hafa verið gefnar út hjá fleiri sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert