Stóra myndin hefur ekkert breyst

Það verður óveður um allt land eftir hádegi.
Það verður óveður um allt land eftir hádegi. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Þetta er allt á áætlun og stóra myndin í dag hefur ekkert breyst,“ segir Elín Björk Jón­as­dótt­ir, veður­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is. Appelsínugul viðvörun verður í gildi í öllum landshlutum vegna veðurs síðar í dag nema á Norðurlandi vestra og Ströndum þar sem rauð viðvörun mun gilda frá klukkan fimm.

„Það er farið að hvessa mjög og snjóa við norðurströndina og á utanverðum Vestfjörðum,“ segir Elín en Vestfirðir og Strandir finna fyrst fyrir veðrinu.

Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum, veginum um Hálfdán og Mikladal og Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði hefur verið lokað vegna veðurs. Þá er ófært norður í Árneshrepp og um Gemlufallsheiði þar sem hviður fara í 43 m/s.

Elín segir að það fari að hvessa á vestast á höfuðborgarsvæðinu milli klukkan eitt og þrjú í dag. „Það er þá Vesturbærinn, Seltjarnarnes, miðbærinn og líklega Vellirnir í Hafnarfirði og Reykjanesbrautin. Um klukkan fimm verður veðrið orðið ansi slæmt á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Elín en appelsínugul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu frá því klukkan þrjú:

„Appelsínugula viðvörunin gildir frá því klukkan þrjú og við breytum því ekki.“

mbl.is