Undirbúningur og viðbragð gert gæfumuninn

Rögnvaldur segir stöðuna góða miðað við aðstæður, enda hafi allur …
Rögnvaldur segir stöðuna góða miðað við aðstæður, enda hafi allur undirbúningur viðbragðsaðila verið til fyrirmyndar, auk þess sem forvirkar lokanir Vegagerðarinnar hafi náð tilætluðum árangri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hjálpar gríðarlega mikið til að almenningur hefur tekið tillit til þessa veðurs og er ekki á ferðinni,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, lög­reglu­full­trúi hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra og forsvarsmaður samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlið, í samtali við mbl.is.

Rögnvaldur segir stöðuna góða miðað við aðstæður, enda hafi allur undirbúningur viðbragðsaðila verið til fyrirmyndar, auk þess sem forvirkar lokanir Vegagerðarinnar hafi náð tilætluðum árangri. 

Rafmagnsleysi helsti óvissuþátturinn

„Helsti óvissuþátturinn í þessu er rafmagnsleysið,“ segir Rögnvaldur. Rafmagnsleysi hefur haft hvað mest áhrif í Skagafirði og á Kópaskeri, en sums staðar hafi tekist að koma rafmagni aftur á með varaafli. 

Þá eru fjarskipti alls staðar komin í lag, þótt þau séu víða keyrð á varaafli. „Þetta eru svolítið margir staðir sem eru keyrðir á varaafli og það náttúrulega dugar ekki endalaust. Einhver af þeim byrja mögulega að detta út í nótt ef það kemst ekkert rafmagn inn á svæðið í millitíðinni.“

Við erum enn þá að fylgjast með ástandi og horfum. Spáin virðist vera að ganga eftir og virðist nú þegar vera byrjuð að ganga niður á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnum er eitthvað að fækka hjá björgunarsveitum í flestum landshlutum nema kannski á Suðurnesjum,“ segir Rögnvaldur.

mbl.is