Vegalokanir og ekkert ferðaveður

Búið er að loka Siglufjarðarvegi. Mynd úr safni.
Búið er að loka Siglufjarðarvegi. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Vetraraðstæður eru um allt land og lítið sem ekkert ferðaveður síðdegis. Veðurstofan hefur gefið út viðvaranir vegna verulega slæms veðurútlits í dag og á morgun en búið er að loka Siglufjarðarvegi vegna óveðurs.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar en talsverður vindstrengur er á vestanverðum Tröllaskaga þar sem vindurinn fer í 30 m/s í hviðum.

Eins og áður hefur komið fram gerir Vegagerðin ráð fyrir því að loka þurfi vegum á meðan veður sem spáð er gengur yfir.

Víða er þæfingur á sunnanverðum Vestfjörðum. Lokað er um Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar og Steingrímsfjarðarheiði og ófært er norður í Árneshrepp.

Hálka eða snjóþekja er víðast hvar á Norðurlandi og töluverð snjókoma eða éljagangur í Eyjafirði og eins og áður sagði er búið að loka Siglufjarðarvegi. 

Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Austurlandi en þæfingur á Fjarðarheiði og Fagradal. Ófært er bæði á Breiðdalsheiði sem og um Öxi.

Veðurvefur mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert