Aðgerðastjórn í viðbragðsstöðu

Verið að kanna færð á Austurlandi en flestir fjallvegir eru …
Verið að kanna færð á Austurlandi en flestir fjallvegir eru ófærir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spáð er norðvestan hvassviðri og aftakaveðri á Austurlandi í dag. Spáin er þó ekki án fyrirvara en veður er farið að versna talsvert uppi á Héraði og að færast niður á firði, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Búið að virkja aðgerðastjórnir bæði á Egilsstöðum og á Eskifirði en ekki hefur komið til útkalla enn sem komið er, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi. 

Lögregla hvetur íbúa til að fylgjast með veðurspám og tilkynningum Vegagerðar um lokanir og eins foreldra skólabarna varðandi skólahald í umdæminu. Skólahald verður með hefðbundnum hætti í Fjarðabyggð. Foreldrar eru beðnir að meta það hvort þeir senda börn sín í skólann eða ekki. Skólahald fellur niður á Fljótsdalshéraði, bæði grunn- og leikskólum, sem og í Vopnafjarðarskóla.

Uppfært klukkan 8:33

Lokanir vega eru víðtækar, þjóðvegur suður af Djúpavogi lokaður, Fjarðarheiði er lokuð sem og Fagridalur, Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarleið og Vatnsskarð. Gert er ráð fyrir að veður fari að ganga niður um hádegi á Austurlandi.

Veðurspá fyrir daginn í dag:

Víða norðan 23-30 m/s og 33-38 sunnan Vatnajökuls, en dregur úr vindi V-lands. Snjókoma á N- og A-landi, annars úrkomulítið. Hiti um eða undir frostmarki.
Minnkandi norðanátt síðdegis, 13-18 í kvöld en mun hvassara í vindstrengjum SA-til fram á nótt.
Norðaustan 10-18 og él á morgun, en yfirleitt þurrt S- og SV-lands. Frost 1 til 8 stig og kaldara annað kvöld.

Á fimmtudag:

Norðan og norðaustan 8-15 m/s, en 13-18 austast. Éljagangur N- og A-lands, annars úrkomulítið. Frost 1 til 8 stig.

Á föstudag:
Norðlæg átt 5-13, skýjað og dálítil él á NA- og A-landi. Bjart með köflum annars staðar, en stöku él syðst á landinu. Frost 5 til 15 stig.

Á laugardag:
Norðlæg átt og léttskýjað á S-verðu landinu, en snjókoma eða él á Vestfjörðum og N-landi. Áfram kalt í veðri.

Á sunnudag og mánudag:
Norðaustanátt með snjókomu eða éljum, en þurrt SV-til á landinu. Minnkandi frost.

Á þriðjudag:
Austlæg átt og stöku él við N- og A-ströndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert