Fárviðri víða á landinu

Björgunarsveitarfólk að störfum í gærkvöldi á höfuðborgarsvæðinu.
Björgunarsveitarfólk að störfum í gærkvöldi á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mjög hvasst er á öllu landinu en aðeins farið að draga úr vindi vestast. Verst er veðrið á Norðurlandi eystra en þar er í gildi rauð viðvörun og gildir hún til hádegis. Þar hefur vindur víða farið í 30-35 metra á sekúndu, að sögn Haraldar Eiríkssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á Norðurlandi hefur verið mikil hríð en ekki hafa borist neinar fregnir af snjóflóðum enn sem komið er. Þar er vert að hafa í huga að lítill snjór var á Norðurlandi eystra áður en óveðrið skall á. 

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Mið-Norðurlandi. Snjóað hefur á Norðurlandi frá því snemma í gærmorgun. Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarvegur eru lokaðir vegna veðurs og snjóflóðahættu. Búast má við því að frekari snjóflóðahætta geti skapast í fjalllendi í Skagafirði, Tröllaskaga og austur fyrir Eyjafjörð.

Viðbúið er að snjóflóð falli í bröttum brekkum sem safna í sig snjó í NA- og N-áttum, einkum þar sem snjór safnast í gil. Fylgst verður með snjóflóðahættu í byggð, en reistar hafa verið varnir í þéttbýli þar sem hættan var áður mest, t.d. á Siglufirði.

Á vef Veðurstofu Íslands segir um Norðurland eystra:

Norðan ofsaveður og stórhríð (Rautt ástand)

10 des. kl. 16:00 – 11 des. kl. 12:00

Norðan ofsaveður og jafnvel fárviðri, 25-33 ms. Mikil snjókoma og skafrenningur. Verst er veðrið við Eyjafjörð og með norðurströndinni en versnar einnig annars staðar á svæðinu í kvöld. Víðtækar samgöngutruflanir verða viðvarandi og líkur eru á tjóni og/eða slysum. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og líkur á að smábátar geti laskast eða losnað frá bryggju. Fólk er beðið að fylgjast vel með veðurspám.

Haraldur segir að veðrið breytist hægt þar sem lægðin er mjög hægfara við vesturströndina þannig að veðrið verður svipað fram eftir morgni. Aðeins dregur úr vindi vestanlands en rok og jafnvel ofsaveður víða annars staðar. 

Veðrið hefur enn ekki náð á Austfirði en er að rjúka upp á Suðausturlandi. Þar á eftir að hvessa mikið í dag og eins á eftir að hvessa á Austfjörðum. Síðdegis fer veðrið að ganga niður á austurhluta landsins og í kvöld verður það gengið niður að mestu nema sunnan Vatnajökuls. 

Þrátt fyrir að rauða viðvörunin renni út á Norðurlandi eystra um hádegi þá tekur við appelsínugul viðvörun eftir það og gildir til klukkan 21 í kvöld. 

Á höfuðborgarsvæðinu er appelsínugul viðvörun í gildi til klukkan sjö og á Suðurlandi til klukkan 11. Við Breiðafjörð gildir hún til átta og við Faxaflóa til klukkan níu sem og á Vestfjörðum. Á Norðurlandi vestra og Ströndum er appelsínugul viðvörun til klukkan 14 og á Austurlandi að Glettingi til klukkan 20 í kvöld. Á Austfjörðum gildir appelsínugul viðvörun til klukkan 22 og á Suðausturlandi til klukkan tvö aðfaranótt fimmtudags. 

mbl.is