Ferðafélagshús í Norðurfirði stórskemmt

Þakið fauk af viðbyggingu sem er vestanvert við húsið.
Þakið fauk af viðbyggingu sem er vestanvert við húsið. Ljósmynd/Aðsend

Skáli Ferðafélags Íslands í Norðurfirði á Ströndum er stórskemmdur eftir óveðrið sem þar gekk yfir síðastliðna nótt. Þak flettist af viðbyggingu þar sem er inngangur, setustofa og salerni. Er sá hluti hússins nú aðeins opin tóftin. Þá fuku þakplötur af risi eldri hluta hússins.

„Þetta er mikið tjón og tilfinnanlegt,“ sagði Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands í samtali við mbl.is. „Þegar birti af degi í morgun sáu heimamenn í Árneshreppi hvers kyns var og létu okkur vita. Sendu okkur mynd nú áðan og við bíðum eftir fleiri til þess að átta okkur betur á umfangi skemmda. Fólk fyrir norðan ætlar að bjarga því sem bjargað verður með því að setja hlera eða slíkt fyrir þar sem húsið stendur opið. Annars er mjög lítið hægt að segja á þessari stundu, en við hér hjá FÍ förum norður strax og leiðin opnast.“

Húsið á Valgeirsstöðum, sem er gamall sveitabær, er byggt árið 1944 en sá hluti þess sem þakið fór af er reistur 1977.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert