Horfðu á rafmagnsstaurana brotna

Rafmagnslínur slitnuðu og staurar brotnuðu víða vegna ofsaveðurs í gær …
Rafmagnslínur slitnuðu og staurar brotnuðu víða vegna ofsaveðurs í gær og ísingar. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Við eiginlega komumst bara ekki neitt áfram á vesturhlutanum, það er til dæmis allt ófært innanbæjar á Blönduósi og Hvammstanga og allt þar í kring þannig að við komumst ekki neitt eiginlega,“ segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, í samtali við mbl.is varðandi rafmagnsleysið sem er víðast hvar á Norðurlandi. Engu að síður er verið að gera allt sem hægt sé til að koma rafmagni á þessi svæði sem fyrst. Þá var Austurland að detta út en Tryggvi segir það væntanlega vera bilun hjá Landsneti en veðrið er að færast þangað. Vonast hann til þess að sá landshluti detti inn aftur fljótlega.

„Vestur- Húnavatnssýslan er meira eða minna úti. Langidalurinn og Svínadalurinn eru líka úti núna. Það er verið að fara að skoða hvað veldur. Við vitum ekki hvað það er. Sama með Hvammstanga og Blönduós. Skagaströnd hefur verið að detta inn og út. Sauðárkrókur er úti. Stór hluti af Skagafirðingum er inni nema norðurhluti Skagans norðan við Sauðárkrók. Við erum að vonast til að geta hreinsað virkið á Sauðárkróki til þess að hægt sé að hleypa rafmagni á þar í von um að það sé skýringin.“ Þá sé Siglufjörður, Ólafsfjörður og Dalvík. Línan til Dalvíkur sé biluð og bilun í Skeiðsfossvirkjun.

Staurar brotnuðu í Svarfaðardal og víðar

„Þannig að þetta svæði er allt úti. Við vitum að það eru brotnir staurar í Svarfaðardal, það svæði er búið að vera úti síðan í gærkvöldi. Það var svo vitlaust veður þar í gær að það brotnuðu staurarnir fyrir framan þá sem fóru á staðinn þannig að þeir urðu frá að hverfa. Hinn hluti Dalvíkurlínunnar fór út í morgun. Ólafsfjarðarlínan frá Dalvík er líka brotin. Þegar Dalvíkurlínan fór út eru Áskógssandur, Hauganes, Grenivík og Hrísey úti, þó Hrísey sé væntanlega komin inn með dísel. Í Þingeyjarsýslunum er línan frá Laxá í Kópasker er úti. Húsavík, sem hefur verið að koma inn og fara út, er hins vegar komin inn,“ segir Tryggvi enn fremur. Norður-Þingeyjarsýsla er öll keyrð á díselvélum, 

„Við erum að setja upp díselvélar í Kelduhverfinu og erum að vonast til þess að koma Keldukerfinu og Öxlinni og eitthvað inn. En annars er keyrt á Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafirði. Við erum að reyna að finna leiðir til þess að koma olíu á staðinn, hún endist ekki nema eitthvað takmarkað. Svo vorum við að heyra að Vopnafjörður og meira og minna allt Austurland hafi verið að detta út. Ég vona að það komi fljótlega inn aftur,“ segir hann. „Þetta er bara mikið ástand og er að færast austur. Þetta er eitthvað sem heldur áfram. En okkur sýnist að veðurspáin sé heldur skárri núna heldur en hún var í gærkvöldi og við auðvitað vonum bara það besta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert