Mokstur bíður morguns

Snjómokstur hefst víða á Norðurlandi í fyrramálið.
Snjómokstur hefst víða á Norðurlandi í fyrramálið. Kort/Vegagerðin

Allir vegir eru ófærir eða lokaðir á Norðurlandi og Norðausturlandi og beðið verður með mokstur þangað til í fyrramálið.

Vaðlaheiðargöng verða lokuð þangað til í fyrramálið, samkvæmt Vegagerðinni.

Flestar leiðir eru orðnar færar á Suðvesturlandi en víðast hvar er hálka. Flughált er á Bláalónsvegi og á vegi 45 milli Sandgerðis og Hafna. Enn er lokað um Krýsuvíkurveg.

Mosfellsheiði og Hellisheiði eru lokaðar.

Á Vesturlandi eru vegir á Snæfellsnesi og í Borgarfirði færir að frátöldum kaflanum frá Baulu og upp í Norðurárdal. Ófært er um Fellsströnd og Skarðströnd sem og um Laxárdalsheiði.

Vegirnir um Bröttubrekku og Holtavörðuheiði eru báðir lokaðir og verður ráðist í snjómokstur í fyrramálið.

Snjóþekja á Austurlandi 

Á Austurlandi er snjóþekja og snjókoma á Héraði en flestir fjallvegir eru ófærir eða lokaðir. Flughálka er í sunnanverðum Fáskrúðsfirði.

Á sunnanverðum Vestfjörðum er fært milli Bíldudals og Brjánslækjar. Á norðanverðum fjörðunum er fært milli allra byggðalaga. Þæfingsfærð er á Ströndum en fært er frá Drangsnesi og suður að Þambárvöllum. 

Á Suðurlandi er lokað með suðausturströndinni frá Kirkjubæjarklaustri og austur að Höfn en til stendur að opna þann kafla um kl 22. Austan Hafnar er hálka og hiti yfir frostmarki.

Hálka eða snjóþekja víðast hvar á Suðausturlandi en ófært er um Grafningsveg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert