Raflínur liggja yfir vegi á þremur stöðum

Laxárlína fór niður á veginn í nótt í Fnjóskadal.
Laxárlína fór niður á veginn í nótt í Fnjóskadal. Ljósmynd/Landsnet

Keyrt er á varaafli á Vopnafirði, Seyðisfirði og í Neskaupstað eftir að rafmagn fór af Austurlandi í morgun. Rafmagn fór einnig af Höfn en er komið aftur á þar. Þetta segir Einar S. Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Landsnets, í samtali við mbl.is spurður um stöðu mála varðandi rafmagnsleysið fyrir norðan og austan í kjölfar veðurofsans sem einkum gekk yfir landið í gær og í nótt.

Það sem veldur þessari stöðu er bilun í Fljótsdalslínu 2 sem liggur úr Fljótsdal yfir í Hryggstekk. Vinnuflokkur er á leiðinni á staðinn til þess að kanna í hverju bilunin felst. Einar segir að hugsanlega sé um að ræða ísingu á raflínunni en ekkert sé hins vegar hægt að fullyrða um það fyrr en komið er á staðinn. Starfsmenn Landsnets hafa staðið í ströngu frá því í gær við það að bregðast við afleiðingum veðurofsans sem gekk yfir landið. Staurar hafa brotnað og rafmagnsleysi orðið víða vegna bilana.

Þá hafa fréttir borist af raflínum sem legið hafa niðri yfir vegi. Einar segir þetta hafa gerst við Dalvík, við Kjarnaskóg við Akureyri og við Húnaver hjá Vatnsskarði. Fylgst er með línunum við Dalvík og Kjarnaskóg en vegurinn um Vatnsskarð er lokaður vegna ófærðar. Lífshættulegt sé ef lína liggur yfir veg og rafmagn er á henni. Ekkert rafmagn sé á umræddum línum en hins vegar geti það stórskaðað línurnar ef ekið er yfir þær.

„Það segir sig sjálft að til þess að geta lagað þessar línur á sem skjótastan hátt þá er það miklu auðveldara ef línurnar hafa ekki orðið fyrir skemmdum.“

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert