Rafmagnslaust í Árneshreppi

Mynd úr safni
Mynd úr safni mbl.is/Hari

Rafmagnslaust er í Árneshreppi og hefur verið síðan í gær. Að sögn Jóns Guðbjörns Jónssonar á Litla-Hjalla var reynt að koma rafmagni þar á um hálftvö í nótt án árangurs. 

Hann segir að farið sé að draga heldur úr veðurhæðinni á Ströndum en í verstu hviðum hafi vindhraðinn farið í 37 metra á sekúndu. 

Varaaflsvélar á Reykjanesi í Djúpi hafa verið ræstar og eru keyrðar með tveimur virkjunum og eru allir notendur með rafmagn í Inndjúpinu eftir því sem best er vitað en kerfið er nú keyrt sem eyja, samkvæmt upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða. 

Rafmagn fór af tímabundið í Súgandafirði í nótt þegar rofi sló út í Tungudal.
Ekki fæst rafmagn frá byggðalínunni á Vesturlínu vegna þess að ekki er hægt að spennusetja tengivirkið í Hrútatungu. Orsökin er sennilega snjór og selta í tengivirkinu en hreinsun á virkinu er hafin.

Á norðanverðun Vestfjörðum eru allir notendur með rafmagn frá varastöðinni í Bolungarvík nema hluti Önundarfjarðar en þar er bilun á sveitalínu. Viðgerðaflokkur er á leiðinni yfir í Önundarfjörð.

Rafstöð í Reykjanesi ásamt vatnsaflsvirkjunum heldur uppi rafmagni í Ísafjarðadjúpi að Langadal undanskildum.

Hólmavík, Strandir, Reykhólasveit og nágrenni: Bilun er á Drangsneslínu og er varaafl keyrt fyrir þéttbýlið á Drangsnesi. Díselvél á Hólmavík og Þverárvirkjun halda rafmagni á Hólmavík og nágrenni og suður að Stórafjarðarhorni. Nokkrir bæir í Steingrímsfirði eru án rafmagns. Rafmagnslaust er frá Broddanesi suður að Hrútatungu. Rafmagnslaust er í Árneshreppi. Aðstæður í kerfinu verða kannaðar, segir í uppfærslu á vef Orkubús Vestfjarða klukkan 8:30.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert