Rúðuþurrkur fuku af bílum

Búast má við að Hellisheiði, þrengsli, Lyngdalsheiði, Þingvallavegur og Biskupstungnabraut …
Búast má við að Hellisheiði, þrengsli, Lyngdalsheiði, Þingvallavegur og Biskupstungnabraut opni ekki fyrr en líða tekur að hádegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfir 150 beiðnir um ýmiskonar aðstoð hafa borist til lögreglunnar á Suðurlandi en undir Ingólfsfjalli fuku bílar út af veginum og rúðuþurrkur fuku af bíl. Átta tré brotnuðu eða rifnuðu upp með rótum á Selfossi, hjólhýsi fauk og lenti á húsi, gróðurhús fuku og þakkantar og plötur fuku af húsum. 

Viðbragðsaðilar á Suðurlandi sinntu í gærkvöldi og í nótt fjölmörgum útköllum vegna óveðursins sem gengið hefur yfir síðustu klukkutíma. Aðgerðastjórn á Suðurlandi var virkjuð kl. 12:00 í gær og hófst þá undirbúningur viðbragðsaðila fyrir þann veðurofsa sem spáð hafði verið.

Hellisheiði og Þrengslum var lokað fyrir umferð laust eftir kl. 15:30. Vegir í kringum Selfoss og í uppsveitum Árnessýslu urðu ófærir um kl. 18:00. Þá var Þingvallavegi um Mosfellsheiði og veginum um Lyngdalsheiði einnig lokað vegna ófærðar. Búast má við að Hellisheiði, þrengsli, Lyngdalsheiði, Þingvallavegur og Biskupstungnabraut verði ekki opnuð fyrr en líða tekur að hádegi. 

Björguðu hröktum og köldum ferðamönnum

Á Selfossi brotnuðu eða rifnuðu upp með rótum átta tré …
Á Selfossi brotnuðu eða rifnuðu upp með rótum átta tré í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Á fjórða tímanum í nótt höfðu borist yfir 150 beiðnir um ýmiskonar aðstoð. Þakplötur og þakkantar á tólf húsum höfðu losnað og/eða fokið af, tvær beiðnir bárust vegna gróðurhúsa sem voru að fjúka og í þremur tilvikum þurfti að aðstoða ferðamenn sem höfðu lent í því að drepist hafði á bílum þeirra og voru þeir orðnir mjög kaldir og hraktir. Í uppsveitum Árnessýslu var svo blint að ekki sást fram fyrir vélarhlífar á bílum.

Tvær fjöldahjálparstöðvar Rauða kross Íslands voru opnaðar, önnur á Selfossi og hin á Borg í Grímsnesi. Fjöldahjálparstöðinni á Selfossi var lokað nokkru fyrir miðnætti þar sem þeir fimm einstaklingar sem þangað komu fengu gistingu á nálægu gistiheimili. Í Grímsnesinu gista hins vegar 12 ferðamenn og bíða þess að veðrið gangi niður.

Undir Ingólfsfjalli fóru vindhviður upp í 50 m/s og áttu ökumenn sem áttu leið um Suðurlandsveg á þeim kafla í nokkrum vandræðum. Tveir bílar fuku út af veginum en engin slys urðu á fólki. Vindhviðurnar voru svo hressilegar að báðar rúðuþurrkur á bíl sem átti þar leið um fuku af.

Í Rangárvallasýslu og undir Eyjafjöllum voru nokkrir ferðamenn aðstoðaðir við að komast til byggða.

Alls hafa um 160 einstaklingar á rúmlega 40 björgunartækjum tekið þátt í björgunaraðgerðum á Suðurlandi, björgunarsveitir, sjúkraflutningar og slökkvilið, ásamt lögreglu. 

mbl.is