„Þarf eitthvað að fara að gerast á morgun“

mbl.is/Sigurður Bogi

„Við erum á ákveðnu varaafli hérna þannig að við getum haldið öllum kælum í gangi og allar afurðir og hráefni eru í lagi á meðan það er. En það er náttúrlega engin vinnsla í gangi og stóru áhyggjurnar eru kannski hvað sé að gerast í sveitunum hjá bændum.“

Þetta segir Jón Þór Jósepsson, framleiðslustjóri mjólkursamlags KS á Sauðárkróki, í samtali við mbl.is vegna rafmagnsleysisins sem verið hefur í bænum frá því í gær vegna óveðursins sem gekk yfir landið. Staðan sé þó þokkaleg í Skagafirðinum þar sem rafmagn sé mjög víða. Þetta sé spurning um þá kúabændur sem eru vestast í héraðinu.

„Þetta eru mjög stórir kúabændur og ég hef trú á því að þeir séu nú flestir vel útbúnir hvað varðar varaafl. Ég hef heyrt að ástandið sé verra í Húnavatnssýslunni,“ segir Jón Þór. Sú mjólk komi þó að hluta til á Sauðárkrók þannig að ákveðnar áhyggjur séu af því.

Komi rafmagnsleysið niður á gæðum mjólkurinnar sé það fljótt að skila sér í milljónum í afurðatapi. „Þannig að við erum bara að reyna að meta stöðuna. Eins og staðan er núna er þetta í lagi. Við vorum búin að vinna það vel í haginn fyrir þetta. Vorum búin að þurrka upp alla mjólk hjá bændum á mánudaginn og vinna hana. Þannig að þetta er í lagi eins og staðan er í dag en það þarf eitthvað að fara að gerast á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert