Vonar að „óskyggnið“ opni augu þingmanna

Björgunarsveitarfólk að störfum í gærkvöldi.
Björgunarsveitarfólk að störfum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í ljósi óveðursins sem hefur gengið yfir landið varð þingmönnum tíðrætt um mikilvægi þess að tryggja afhendingaröryggi rafmagns og öflugt flutningskerfi, undir dagskrárliðnum störf þingsins á Alþingi.

Einnig töluðu þeir um mikilvægi þess að styðja við bakið á viðbragðsaðilum sem leggja sig í hættu.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að óveðrið og rafmagnsleysið sem hefur fylgt því opnaði vonandi augu þingmanna fyrir því að styrkja innviði á borð við dreifikerfi raforku og mikilvægi viðbragðsaðila.  

„Ég vona að þetta óskyggni sem gekk yfir landið opni augu okkar,“ sagði hann.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, sagði starfsmenn oft vinna kraftaverk við erfiðar aðstæður við að gera við gamlar byggðarlínur sem þoli hvorki ísingu né snjó. Mikilvægt sé að tryggja að þær þoli álag svo ekki þurfi að senda fólk í stórhættulegar ferðir. Til að bregðast við þessu mætti m.a. grafa byggðalínur í jörð.

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók undir þessi orð og sagði viðbragðsaðila hafa unnið þrekvirki. Tryggja þyrfti áframhaldandi stuðning við björgunarsveitirnar.

Björgunarsveitarfólk að störfum í gærkvöldi.
Björgunarsveitarfólk að störfum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert