77,7% hlynntir dánaraðstoð

Stuðningur við dánaraðstoð eykst lítillega milli ára samkvæmt nýrri könnun …
Stuðningur við dánaraðstoð eykst lítillega milli ára samkvæmt nýrri könnun Maskínu sem Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð, lét vinna. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

77,7% Íslendinga eru hlynntir dánaraðstoð samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Stuðningurinn hefur aukist lítillega frá síðustu könnun sem Siðmennt lét gera árið 2015 þegar 74,5% svarenda sögðust hlynntir dánaraðstoð. 

Þegar öll svör eru skoðuð velja 77,7% svarenda valmöguleikann „Mjög hlynntur“ eða „Fremur hlynntur“, samanborið við 74,5% árið 2015, en 6,8% svara því til að þau séu „Mjög andvíg“ eða „Fremur andvíg“, samanborið við 7,1% árið 2015. Þá eru 15,4% sem svara „Í meðallagi“, samanborið við 18% fyrir fjórum árum. 

Þeim fjölgar verulega, eða nærri 7 prósentustigum, sem segjast „Mjög hlynnt“ á milli kannana eða úr 30,4% árið 2015 í 37% árið 2019. Að sama skapi fækkar þeim sem eru „Fremur hlynnt“ úr 44,5% 2015 í 40,7%. Þeim sem eru „Mjög andvíg“ fækkar einnig úr 3,1% 2015 í 2,4% 2019. Þá fjölgar þeim um 0,4% sem eru „Fremur andvíg“. 

Fram kemur í tilkynningu frá Lífsvirðingu, félagi um dánaraðstoð, að afgerandi stuðningur Íslendinga við dánaraðstoð sé ánægjulegur og velta megi fyrir sér hvenær Alþingi muni taka tillit til afstöðu kjósenda. 

Hætta á misnotkun eða andstætt siðferðisgildum

30,7% þeirra sem sögðust andvígir dánaraðstoð sögðu ástæðuna vera að hætta væri á misnotkun. Þá töldu 23,5% að dánaraðstoð væri andstæð siðferðislegum og faglegum skyldum lækna.

21,7% töldu að líknandi meðferð, það er núverandi þjónusta við sjúklinga, nægði til að draga úr þjáningu. 20,4% töldu dánaraðstoð vera andstæð eigin siðferðisgildum og 3,6% sögðust vera andvíg dánaraðstoð af trúarlegum ástæðum.

„Hollenska leiðin“ nýtur mest stuðnings

Í könnuninni voru svarendur inntir eftir því hvaða aðferð Íslendingar ættu að taka upp ef dánaraðstoð yrði leyfð en í dag er notast við þrjár meginaðferðir við dánaraðstoð.

Um 47% hugnast best sú aðferð sem notuð er í Hollandi, Belgíu, Lúxemborg og Kólumbíu og felur í sér að læknir gefur banvænt lyf beint í æð. Þessi aðferð er oft nefnd „hollenska leiðin“. Tæp 20% hugnast best sú aðferð sem notuð er í Sviss þar sem einstaklingurinn innbyrðir sjálfur banvæna blöndu sem læknir hefur skrifað upp á. 

Þá eru um 7% hlynnt aðferð sem kennd hefur verið við Oregon-ríki í Bandaríkjunum þar sem einstaklingurinn leysir út banvæna lyfjablöndu sem læknir hefur skrifað upp á.

Breyting á orðalagi

Spurningin um afstöðu Íslendinga til dánaraðstoðar í könnun Lífsvirðingar 2019 er orðuð aðeins öðruvísi en gert var í könnun Siðmenntar árið 2015.

Í könnun Siðmenntar frá 2015 hljóðaði hún svo:

Ertu hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði)?

En í könnun Lífsvirðingar 2019 hljóðaði hún á þessa leið:

Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt (dánaraðstoð) ef hann er haldinn sjúkdómi eða ástandi sem hann upplifir óbærilegt og metið hefur verið ólæknandi?

Stjórn Lífsvirðingar telur að um sé að ræða stigsbreytingu í spurningunum en ekki eðlismun en samanburður niðurstöðu mun koma betur í ljós við næstu könnun sem framkvæmd verður. Árið 2015 var ekki búið að stofna Lífsvirðingu og hugtakanotkun því ekki í samræmi við það sem félagið styðst við í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert