Að frá því klukkan hálfsjö í morgun

Einar Ásgeirsson mjólkurbílsstjóri átti enn sjö bæi eftir á vaktinni …
Einar Ásgeirsson mjólkurbílsstjóri átti enn sjö bæi eftir á vaktinni sinni á áttunda tímanum í kvöld. Eins og sjá má hefur víða snjóað mikið, en bændur hafa þurft að moka heilmikið til að mjólkurbíllinn geti komist að mjaltahúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Ásgeirsson, mjólkurbílstjóri hjá MS á Norðurlandi vestra, var enn á fullu að klára vaktina í dag þegar blaðamaður mbl.is hitti á hann við Páfastaði á Langholti í Skagafirði um hálfátta í kvöld. Átti hann þá enn sjö bæi eftir, en hann hafði þurft að sleppa því að sækja mjólk á fjóra bæi vegna ófærðar.

Einar segir að um svaðalegt snjómagn hafi verið að ræða víða og nefnir þar sérstaklega Torfalækjarflóa sunnan við Blönduós. Þar hafi hann þurft að skilja eftir einn bæ og svo tvo í Víðidal.

Þar sem einn dagur datt út í akstrinum í gær vegna veðurs og ófærðar var ákveðið að fá auka bíl frá Selfossi í dag. Fór hann út í Fljót í Skagafirði, en sjálfur hafði Einar tekið báðar Húnavatnssýslurnar og Skagafjörðinn.

Á mánudaginn náði hann að taka þriggja daga mjólk sem framleidd hafði verið yfir helgina og í dag þurfti aftur að taka þriggja daga mjólk vegna dagsins í gær. Það hefur því verið umtalsverð söfnun síðustu tvö skipti.

Einar segir að rafmagnsleysi hafi haft sett strik í reikninginn á einhverjum bæjum, en í heild hafi tekist að heimta stærsta hluta hennar og hitastigið verið mjög gott. Það hafi líklega hjálpað nokkuð til að kuldi hafi verið úti. Hann segir þó hafa verið hellt niður á einhverjum bæjum en fyrr í dag sagði mbl.is meðal annars frá því að 2.000 lítrum hefði verið hellt niður á Bessastöðum á Heggstaðanesi.

Framundan hjá Einari, þegar mbl.is náði tali af honum, voru sjö bæir, en til viðbótar hafði verið tilkynnt að á áttunda bænum hefði þurft að hella niður mjólk. Stefnan var svo sett á Kaupfélagið á Sauðárkróki þar sem hún verður lögð inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert