Grófu upp 11 hross í Húnavatnssýslu

Hrossabændur þurfa að huga að skepnum sínum í fannferginu.
Hrossabændur þurfa að huga að skepnum sínum í fannferginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldi hrossa hefur grafist í snjó í vonskuveðri í Húnavatnssýslu. Björgunarsveitarmenn í Björgunarsveitinni Brák í Borgarfirði björguðu 11 hrossum sem höfðu grafist í snjó í dag.

Þeir unnu einnig að því að brjóta ísingu af spennulínum til að koma rafmagni á aftur á Norðurlandi í gær. Þeir fóru norður yfir heiðar til að veita félögum sínum liðsinni. 

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til víða um land. Í kjölfar norðanáhlaups er spáð frosthörku víðast hvar á landinu. Þetta kallar á aukið eftirlit og umhirðu með hrossum á útigangi.

Bent er á að nauðsynlegt geti verið að moka leið að hrossum til að koma til þeirra heyi þar sem skaflar eru miklir. Hross á útigangi þurfa að vera í ríflegum holdum á þessum árstíma.

Fréttin hefur verið uppfærð en upphaflega var greint frá að hrossin hafi verið í Þingeyjarsýslu. 

mbl.is