Hundraða milljóna tjón vegna óveðursins

Björgunarfélag Vestmannaeyja þurfti að sinna fjölda útkalla í óveðrinu.
Björgunarfélag Vestmannaeyja þurfti að sinna fjölda útkalla í óveðrinu. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Ljóst er að eignatjón vegna óveðursins sem gekk yfir landið hleypur á hundruðum milljóna króna, sérstaklega í raforku- og fjarskiptakerfinu. Mikið foktjón hefur fylgt aftakaveðrinu.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Mikið tjón í Vestmannaeyjum

Hjá fiskimjölsverksmiðjunni FES hjá Ísfélagi Vestmannaeyja er áætlað tjón um 30 milljónir króna, hjá Vinnslustöðinni í Eyjum er áætlað tjón 40 milljónir, hjá Godthaab í Eyjum er tjón áætlað um 15 milljónir og hjá Eyjablikki um 1 milljón.

Um 70 fasteignir urðu fyrir foktjóni í bænum en ekki er vitað um tjónafjárhæð. Einnig varð annað tjón og óbeinn kostnaður.

Geymsluhús við malarvöllinn í Heimaey, steinsnar frá Samkomuhúsinu, skemmdist í …
Geymsluhús við malarvöllinn í Heimaey, steinsnar frá Samkomuhúsinu, skemmdist í óveðrinu. Ljósmynd/Óskar Pétur

Náttúruhamfaratrygging Íslands greiðir tjón sem verður á fasteignum, innbúi og lausafé vegna sjávarflóða. Óverulegt tjón hefur orðið tjón enn sem komið er vegna þeirra. Einungis hafa borist tilkynningar um sjávarflóð í Straumsvík, á Bakkafirði, á Borgarfirði eystra og Raufarhöfn.

Í skýrslunni kemur fram að aðgerðir viðbragðsaðila hafi gengið vel. Almenningur reyndist vel undirbúinn og fór að tilmælum viðbragðsaðila og yfirvalda.

„Enn eru viðbragðsaðilar að störfum og verða næstu daga, sérstaklega á Norðurlandi, verkefni þeirra snúa að enduruppbyggingu samfélaga og íbúa þeirra. Verið er að huga að íbúum á þeim svæðum þar sem húsahitun er ábótavant og tryggja öryggi, líf og heilsu íbúa,“ segir í skýrslunni.

Ástand víða slæmt 

Ástand er víða slæmt á sveitabæjum vegna rafmagns- og sambandsleysis. Hætta er á að mikill skaði verði ef ekki er brugðist við skjótt en sjálfvirkir þjarkar sjá um mjaltir, fóðurgjöf, mokstur og annað sem háð er rafmagni.

Einnig er sagt mikilvægt að ná til bæja í strjálbýli sérstaklega þar sem rafmagnslaust hefur verið. Gera má ráð fyrir því að flytja þurfi fólk frá rafmagnslausum stöðum vegna kólnandi veðurs, að opna megi fleiri fjöldahjálpastöðvar ef nauðsyn krefur og að bæta þurfi við vélakost rafstöðva.

„Mikið álag er á viðbragðsaðilum og huga þarf að auknum mannskap svo tryggja megi hvíld og samfellu í störfum viðbragðsaðila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert