Kvartaði undan útúrsnúningum forsætisráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mun ráðherra beita sér fyrir því að Íslendingar hætti að drepa hvali?“ spurði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á þingi í morgun.

Þorgerður Katrín sagði að auk dýraverndunarsjónarmiða, sem væru auðvitað gríðarlega mikilvæg, væru núna komin fram dýrmæt loftslagsrök. 

„Ég hlýt því að spyrja forsætisráðherra hvort hún sem oddviti ríkisstjórnarinnar og með þá stefnu Vinstri grænna að vilja hætta hvalveiðum muni ekki beita sér fyrir því að hætta veiðum og drápum á hvölum,“ sagði Þorgerður Katrín.

Mun hún taka þetta upp innan ríkisstjórnar og mun hún afturkalla leyfið? Mun hún beita sér fyrir því að það verði hvalveiðibann af hálfu Íslands? Það yrði jafnframt að mínu mati dýrmæt yfirlýsing fyrir ekki síst ímynd Íslands á þessum tímum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hefur óskað eftir heildarmati á veiðunum

Katrín Jakobsdóttir sagði að formaður Viðreisnar þekkti það vel að ákvörðun um að afturkalla leyfi til hvalveiða hvíli á herðum sjávarútvegsráðherra. 

Ég tel mjög mikilvægt, og hef óskað eftir því við sjávarútvegsráðherra, að fram fari heildarmat á þessum veiðum, ekki eingöngu út frá stofnstærð heldur út frá sjálfbærri þróun, þ.e. annars vegar um efnahagsleg áhrif veiðanna og samfélagsleg en líka heildstæð umhverfisáhrif. Það tengist auðvitað því sem þingmaðurinn nefnir um loftslagsáhrif,“ sagði Katrín.

Forsætisráðherra benti Þorgerði Katrínu á að hún hefði áður spurt um hvalveiðar. Þorgerður Katrín sagðist ánægð með að ráðherra benti á það. „Það er af því að við fáum aldrei nein svör hér. Það eru alltaf einhverjir útúrsnúningar,“ sagði Þorgerður Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert