„Maður verður að bjarga sér“

Íbúar víða á landsbyggðinni hafa þurft að sýna sjálfsbjargarviðleitni í rafmagnsleysinu í kjölfar óveðursins sem gekk yfir landið í vikunni. Ingvar Daði Jóhannsson og Barbara Wenzl, hrossabændur á Engihlíð í Skagafirði, rétt fyrir ofan Hofsós, gripu til sinna ráða þegar matur í ísskápnum á bænum lá undir skemmdum og breyttu útidyrahurð í ísskápshurð. 

Svona er umhorfs á Hofsósi eftir óveðrið síðustu daga.
Svona er umhorfs á Hofsósi eftir óveðrið síðustu daga. Ljósmynd/Daði Jóhannsson

 „Við erum með tvennar dyr á húsinu og það safnaðist mikill snjór á aðrar þeirra. Ísskápurinn var orðinn heitur og það var ekkert annað að gera en að smíða sér ísskáp utan við dyrnar,“ segir Daði í samtali við mbl.is.  

Vopnaður fægiskóflu gróf Daði hólf inn í skaflinn sem myndast hafði við útidyrahurðina og geymdi þar helstu nauðsynjar líkt og mjólk, smjör og osta. „Heimiliskettinum fannst þetta mjög áhugavert og hundinum sömuleiðis,“ segir Daði, en dýrin má sjá á vappi á myndskeiðinu hér að ofan. 

Daði bauð um tíma upp á sigl­ing­ar frá höfn­inni á …
Daði bauð um tíma upp á sigl­ing­ar frá höfn­inni á Hofsósi við Vest­urfara­setrið. Ljósmynd/Aðsend

Veður fór að versna strax á þriðjudagsmorgun í Skagafirði. „En það var ekki orðið ógeðslegt fyrr en um hádegi og fór svo að versna enn frekar úr því,“ segir Daði. Rafmagnið hefur dottið inn og út á bænum en mest varði rafmagnsleysið í um sólarhring þegar það datt út síðdegis í gær. Rafmagnið var nýlega komið á þegar blaðamaður náði tali af Daða. 

Vesturfarasetrið á Hofsósi er á kafi í snjó.
Vesturfarasetrið á Hofsósi er á kafi í snjó. mbl.is/Daði Jóhannsson

Veðravíti sem ekki hefur sést áður

„Staðan er að verða þokkaleg en þvílíkt veðravíti höfum við ekki séð hérna á þessu svæði,“ segir Daði sem segist samt sem áður vera „hundvanur“ óveðrum og ástandið síðustu daga hafi því ekki haft alvarleg áhrif en það sama eigi ekki alveg við um unnustu hans. „Barböru var ekki alveg sama, húsið nötraði gríðarlega og þetta var eins og jarðskjálftar þegar höggbylgjurnar komu á húsið.“

Barbara Wenzl og er frá Aust­ur­ríki og stóð ekki á …
Barbara Wenzl og er frá Aust­ur­ríki og stóð ekki á sama þegar verstu hviðurnar skullu á bænum eins og höggbylgjur sem minntu einna helst á jarðskjálfta. Ljósmynd/Aðsend

Barbara og Daði höfðu töluverðar áhyggjur af hrossunum á meðan veðrið gekk yfir en þær reyndust óþarfar. „Þau eru á góðum stað hjá okkur. Það var enginn séns að líta eftir þeim, ég sá þau hvergi og það var ekki fyrr en í gærmorgun sem ég komst í að kíkja á þau og þau höfðu þá staðið allt af sér.“

Nú horfir allt til betri vegar og Daði og Barbara ferðast um á dráttarvél milli staða. „Það er örugglega verra ástand hjá mörgum öðrum, við höfum það alveg fínt, þannig lagað. Maður verður að bjarga sér.“

Snjóþungt er á Hofsósi og í nágrenni.
Snjóþungt er á Hofsósi og í nágrenni. Ljósmynd/Daði Jóhannsson
Rafmagn hefur komið og farið síðustu sólarhringa á Hofsósi og …
Rafmagn hefur komið og farið síðustu sólarhringa á Hofsósi og nærliggjandi bæjum. Mest varði rafmagnsleysið í tæpan sólarhring. Rafmagn var aftur komið á í hádeginu í dag. Ljósmynd/Daði Jóhannson
mbl.is