Örlög klukkunnar ráðast í mars

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

Niðurstaða úr samráðsferli um stillingu klukkunnar á Íslandi mun liggja fyrir um vorjafndægur, í mars. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Starfs­hóp­ur, sem Óttar Proppé heil­brigðisráðherra skipaði um still­ingu klukk­unn­ar sjö dög­um áður en hann lét af embætti, skilaði af sér til­lög­um fyr­ir réttu ári og voru niður­stöður henn­ar kynnt­ar í sam­ráðsgátt stjórn­valda, þar sem al­menn­ingi gefst kost­ur á að gera at­huga­semd­ir. 1.586 um­sagn­ir bár­ust í sam­ráðsgátt­inni frá al­menn­ingi, og hafa þær aldrei verið fleiri.

„Ég ákvað að fara þessa óvenjulegu leið og láta reyna á kosti þessa samráðs og er mjög ánægð með útkomuna,“ segir Katrín. Margar vel rökstuddar umsagnir hafi borist.

Helstu sjónarmið beggja póla hafa verið dregin saman í skýrslu og segir Katrín að þar takist einkum á þau sem bendi á heilsufarsleg áhrif morgunbirtu, annars vegar, og þau sem bendi á þá heildarfækkun birtustunda á vökutíma sem fylgja myndi breytingunni og gætu leitt til minni útivistar og hreyfingar.

Fundar með fulltrúum beggja sjónarmiða

Forsætisráðherra mun á næstu vikum funda með þeim aðilum sem sendu inn veigamiklar umsagnir, að sögn til að kafa dýpra ofan í rökstuðning þeirra. Sjálf vill hún ekki gefa upp afstöðu í málinu, en bendir á að skiptar skoðanir séu um málið þvert á stjórnmálaflokka. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lýsti því yfir um helgina að henni hugnaðist seinkun klukkunnar. Hún hefði lengi verið á báðum áttum, en hefði komist að niðurstöðu eftir að hafa kynnt sér málið til hlítar.

Til stendur að hætta flakki milli sumar- og vetrartíma í ríkjum Evrópusambandsins á næstu árum. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun um hvort ríki sambandsins hyggist halda sig við sumartímann, sem þegar er í gildi meirihluta ársins, eða vetrartímann (sem sumir kalla náttúrulegan, þótt klukkan sé vitanlega uppfinning mannsins). Fari svo að nágrannaríki okkar í Evrópu ákveði að halda sig við sumartímann, en Íslendingar að seinka klukkunni, verður þriggja klukkutíma munur á staðartíma Íslands og meginlands Evrópu.

Spurð hvort ekki væri ráðlegt að bíða með ákvörðun hér á landi þar til ríki Evrópusambandsins hafa komist að niðurstöðu, gefur Katrín í skyn að sú bið gæti orðið ansi löng. Því standi það ekki til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert