Skömmtun lokið á Sauðárkróki og rafmagn komið á

Víða er enn rafmagnslaust á Norður- og Norðausturlandi.
Víða er enn rafmagnslaust á Norður- og Norðausturlandi. Kort/Rarik

Sauðárkrókslína 1 er komin í lag og skömmtun er lokið á Sauðárkróki og rafmagn komið á að fullu. 

Starfsfólk Rarik hefur unnið hörðum höndum að því undanfarna sólarhringa við að reyna að koma á rafmagni og lítið má út af bregða að sögn Steingríms Jónssonar, deildarstjóra netreksturs hjá Rarik á Norðurlandi. Vinnuflokkar frá öllu landinu eru að störfum. 

Hvammstangi er kominn með rafmagn en einhverjar bilanir eru á bæjum í kring sem starfsmenn Rarik leita uppi. Aðgerðum er sömuleiðis lokið í Dalabyggð þar sem rafmagn er komið á. 

Ólafsfjörður og Siglufjörður fengu rafmagn í gær en það datt út þegar reynt var að koma á símasambandi. Viðgerð stendur yfir. Sömuleiðis er rafmagnslaust á Húsavík, Dalvík og í Svarfaðardal. Þá er rafmagn skammtað á Raufarhöfn og Þórshöfn. 

„En þetta er að mjakast og staðan er miklu betri núna klukkan níu en hún var klukkan átta,“ segir Steingrímur, sem þorir ekki að fullyrða um hvenær rafmagn verður komið á að fullu að nýju.

Hér má sjá starfsmann Landsnets að störfum við Sauðárkrókslínu í nótt:


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert