Staðan með spennivirkið „náttúrlega óþolandi“

Ársæll Daníelsson hjá Rarik á Hvammstanga.
Ársæll Daníelsson hjá Rarik á Hvammstanga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Koma þyrfti upp varaafli með dísilstöðvum á Hvammstanga og víðar þar sem raforkuöryggi er ótryggt í dag. Þá þyrfti einnig að huga betur að spennivirkjum, en selta og ísing í einu spennivirki í Hrútafirði var ein aðalástæða þess að rafmagn datt út á stórum svæðum í Húnavatnssýslum og víðar. Þetta segir Ársæll Daníelsson hjá Rarik á Blönduósi, en hann stýrði aðgerðum á Hvammstanga.

Þegar blaðamaður kom við í starfsstöð Rarik í bænum seinni partinn í dag var Ársæll á leiðinni út, enda fullt af verkefnum enn í gangi. Hafði hann rétt áður klárað vettvangsskoðun á Vatnsnesi, en þar hefur verið rafmagnslaust frá þriðjudegi og verður líklega áfram fram á annað kvöld. Segir hann að annars sé vestari Húnavatnssýslan að mestu komin inn, ef frá er talið vestara Hóp og hluti upp að Stóruborg.

Ársæll segir að línan á Vatnsnes hafi slitnað á allavega tveimur eða þremur stöðum og þá hafi á öðrum stað brotnað einhverjir fjórir staurar. Var til skoðunar að hefja viðgerð í kvöld, en Ársæll segir að vegna ísingar sé heldur ekki víst að línan haldi ef strekkt væri á henni. „En á morgun ætti þetta að hafast,“ segir hann um vestanvert Vatnsnesið.

Vinnuflokkur sem hefur verið að frá því á þriðjudagskvöldið er kominn í verðskuldaða hvíld að sögn Ársæls, en annar flokkur frá Hvolsvelli var á leið og átti hann að fara beint í að skoða með viðgerðir.

Spurður út í hvað sé hægt að gera til að fyrirbyggja rafmagnsleysi sem þetta segir Ársæll að í fyrsta lagi sé um að ræða ofsaveður sem hann hafi aðeins séð á um 20 ára fresti á sínum 39 ára tíma hjá Rarik. Hins vegar sé alltaf hægt að fyrirbyggja svona atvik töluvert meira. Nefnir hann að með dísilstöð væri hægt að koma rafmagni á Hvammstanga strax ef rafmagn slær út. Það sé meira að segja tenging tilbúin fyrir það og búið að prófa kerfið.

Þá segir hann einnig hægt að horfa til þess að stækka spenninn á rafmagnslínunni norður við Laxárvatn. Þar sé spennirinn of lítill og því ekki hægt að tengja inn á línuna til Hvammstanga. Þessar lausnir myndu duga að sögn Ársæls „og meira en það“.

Ljóst er að spennivirkið í Hrútatungu var stór orsakavaldur rafmagnsleysisins á þessu svæði að sögn Ársæls, en þegar selta og ísing settist á það í ofsaveðrinu sló rafmagnið út. Ársæll bendir á að þetta sé tengipunktur frá Landsneti og þaðan sé dreifing um Strandir, alla vestari Húnavatnssýsluna, yfir í Búðardal og Dalina. Segir hann að Landsnet þurfi að gera eitthvað með spennivirkið. „Þetta er náttúrlega óþolandi. Línurnar hjá Landsneti eru í lagi en spennivirkið ekki.“

Fannfergi á Hvammstanga.
Fannfergi á Hvammstanga. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is