Andlát: Kristinn Borgar Indriði Jónsson á Skarði

Kristinn Borgar Indriði Jónsson
Kristinn Borgar Indriði Jónsson

Kristinn Borgar Indriði Jónsson, fyrrverandi óðalsbóndi á Skarði á Skarðsströnd og lögreglumaður, lést á Landspítalanum laugardaginn 7. desember, 75 ára gamall, eftir skammvinn veikindi.

Hann fæddist 28. nóvember 1944 á Skarði og var sonur þeirra Jóns Gunnars Jónssonar bónda frá Stykkishólmi og Ingibjargar Kristrúnar Kristinsdóttur, húsfreyju af Skarðsætt. Ingibjörg var dóttir Kristins Indriðasonar og Elínborgar Bogadóttur Magnusen. Elínborg var dóttir Boga Magnusen, bónda og hagleiksmanns í Skarði.

Engin jörð hér á landi hefur verið lengur í eigu sömu ættar en Skarð á Skarðsströnd. Heimildir eru um að á 12. öld hafi Húnbogi Þorgilsson, bróðir Ara fróða, búið á Skarði. Afkomendur Húnboga hafa búið þar síðan óslitið, að undanteknum tveimur áratugum í lok 18. aldar. Meðal þekktustu ábúenda á Skarði er Ólöf ríka sem bjó þar með bónda sínum, Birni hirðstjóra. Kristinn var 27. liður af ætt Skarðsverja.

Kristinn fékk kennslu í farskóla í sveitinni og sótti síðar námskeið fyrir lögreglumenn. Kristinn og Þórunn, kona hans, voru fjárbændur frá því að þau tóku við búi á Skarði ásamt Ólafi Eggertssyni á Skarði II. Einnig stundaði hann skólaakstur í 43 ár og starfaði sem lögreglumaður í Búðardal og síðar sem héraðslögreglumaður í 38 ár. Hann hafði unun af sjósókn og réri til fiskjar frá unga aldri ásamt því að stunda selveiðar og fara í eyjar og sker til dún- og eggjatekju. Dúnhreinsistöð var lengi starfrækt á Skarði og lagði hann þar sitt lið.

Kristinn kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni Þórunni Hilmarsdóttur (f. 1944) hinn 8. janúar 1967. Þau eignuðust þrjú börn; Hilmar Jón, öryggisfulltrúa og fyrrverandi lögreglumann, Boga Magnusen skipulagsfulltrúa og Ingibjörgu Dögg tannsmið. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin sjö talsins.

Útför Kristins er ráðgerð frá Skarðskirkju sunnudaginn 22. desember kl. 14.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert