Dómur þyngdur úr fimm í fjórtán ár

Húsið, sem stóð við Kirkjuveg á Selfossi, brann til kaldra …
Húsið, sem stóð við Kirkjuveg á Selfossi, brann til kaldra kola. Tvennt lést í brunanum. mbl.is/Eggert

Landsréttur hefur þyngt dóm yfir Vigfúsi Ólafssyni úr fimm árum í fjórtán ár fyrir að hafa valdið eldsvoða við Kirkjuveg á Selfossi í fyrra þar sem tvær manneskjur létust.

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi hann í fjögurra ára fangelsi í júlí síðastliðnum. Ríkissaksóknari áfrýjaði dómnum til Landsréttar.

Hann var dæmdur í Landsrétti fyrir brennu og manndráp en í héraðsdómi hafði hann verið dæmdur fyrir brennu og manndráp af gáleysi. Aðalkrafa héraðssaksóknara var að Vigfús skyldi dæmdur fyrir manndráp og brennu en til vara fyrir manndráp af gáleysi og brennu.

Í dómi Landsréttar var vísað til þess að Vigfús hefði kveikt eldinn vitandi að á efri hæð hússins væru þau tvö sem létust í eldsvoðanum. Þá hefði hann vitað að mikill eldsmatur væri í húsinu og ekki getað dulist að svo gæti farið að þau, sem uppi voru, kæmust ekki undan ef kviknaði í húsinu og líklegt væri að þau gætu beðið bana, eins og reyndin hefði orðið. Þrátt fyrir að hafa vitað þetta hefði hann kveikt eld sem hefði leitt til þess að tvær manneskjur létust. Þess vegna hafi hann verið sakfelldur fyrir manndráp. 

„Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ásetningur hans hefði ekki verið mjög einbeittur. Hins vegar hefði hann enga tilraun gert til að vara við þau sem voru á efri hæð hússins og létust í eldsvoðanum eða koma þeim til bjargar,“ segir í reifun Landsréttar, þar sem einnig kemur fram að Vigfúsi hafi verið gert að greiða börnum og foreldrum hinna látnu bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert