Fjármagna reksturinn með sölu getraunaseðla

Sigríður Gísladóttir, Hjalti Kristjánsson og Haukur Guðjónsson hittast vikulega og …
Sigríður Gísladóttir, Hjalti Kristjánsson og Haukur Guðjónsson hittast vikulega og tippa fyrir hópa. mbl.is/Óskar Pétur

Knattspyrnufélag Framherja og Smástundar í Vestmannaeyjum, KFS, er sennilega eina félag heims sem fjármagnar reksturinn á sölulaunum getraunaseðla og leggur auk þess fyrir í varasjóð.

Maðurinn á bak við þessa ótrúlegu staðreynd er Hjalti Kristjánsson læknir. Hann hefur séð um getraunasöluna frá 1994 eða í aldarfjórðung, fyrst fyrir Amor sem síðar varð Framherji og síðan fyrir sameiginlegt félag Framherja og Smástundar. „Við fáum 26% í sölulaun og tekjur okkar eru um 2,5 milljónir króna á ári,“ segir hann. Bætir við að í byrjun hafi afraksturinn verið um ein milljón á ári, fljótlega farið í eina og hálfa, svo tvær og verið stöðugur í fyrrnefndri tölu í nokkur ár.

Þegar Hjalti kom til Eyja tók hann til hendi hjá Amor og hóf fjáröflun með þessum hætti. „Ég er gamalt tölfræðinörd og sá að þetta væri fjáröflunarleið sem ég kynni á og væri góður í, en þetta snýst um vinnu og aftur vinnu, eins og svo margt annað.“

KFS er með karlalið í 4. deild. 2. flokkur spilar bæði í nafni ÍBV og KFS og því geta leikmennirnir spilað með KFS í deildinni. ÍBV borgar þjálfarakostnaðinn en KFS ferðakostnað, bolta og búninga auk æfingakostnaðar í Reykjavík, þar sem sumir leikmannanna eru við nám og störf. „Við erum ekki með neinn mann á launum,“ leggur Hjalti áherslu á.

Liðið hefur leikið í 2. og 3. deild og þangað er stefnan tekin á ný. „Þar er margfaldaður kostnaður samanborið við að vera í 4. deild og því reynum við að geyma peninga svo við höfum efni á því að fara upp. Ætli við séum ekki eina fótboltafélagið á Íslandi sem á varasjóð.“

Getraunir ekki fyrir fíkla

Hjalti grúskar í tölfræði, býr til getraunakerfi og hefur eytt miklum tíma í getraunastarfið í aldarfjórðung. „Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og gott frávik frá læknisfræðinni,“ segir hann. Hann selur um 50 manns „hlutabréf“ í getraunakerfum og segir að með þeim hætti hafi hann náð til fleiri en aðrir. „Konur hafa áhuga á því að styrkja félögin og vera með en eru kannski ekki endilega eins spenntar og karlar fyrir því að mæta og tippa. Ég hef nýtt mér það og sé um að tippa fyrir alla hópana.“ Ekki skemmi fyrir að vinningar detti inn öðru hverju, það fréttist fljótt og áhuginn aukist í kjölfarið. „Ég vann 4,7 milljónir um daginn og fannst að ég ætti það inni því áður hafði ég unnið níu milljónir fyrir einn hópinn án þess að fá krónu sjálfur!“

Hópar hjá KFS hafa 11 sinnum fengið 13 rétta leiki frá áramótum. „KFS selur 3% af öllum getraunaseðlum, er með 40% af hópum í úrslitakeppninni, 11 af 26 hópum í öllum deildum, þannig að við teljum okkur vera ókrýnda Íslandsmeistara í árangri í getraunum.“

Töluverð umræða hefur verið um fjárhættuspil og spilafíkn hérlendis að undanförnu. Hjalti segist vita af vandanum og vissulega sé hægt að misnota getraunir eins og annað, en hann telji að spilafíklar leiti annað vegna þess að getraunir séu bara vikulega og fíklar hafi ekki þolinmæði til að bíða svo lengi. „Ég er tilbúinn að tippa fyrir þá sem ekki eru spilafíklar,“ segir hann og vísar á upplýsingar um starfsemina á heimasíðunni (kfs.is).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »