Fjölmörg verkefni vegna ofsaveðursins

Björgunarsveitir hafa sinnt mörgum verkefnum í vikunni.
Björgunarsveitir hafa sinnt mörgum verkefnum í vikunni. Ljósmynd/Landsbjörg

Síðastliðinn sólarhring hafa 489 björgunarsveitarmenn verið virkir í verkefnum að mestu á Norðvestur- og Norðausturlandi. Inni í þeirri tölu eru 47 björgunarsveitarmenn sem fóru síðdegis norður, annars vegar 37 manns með C130 (Herkúles) flutningaflugvél frá danska hernum og hins vegar 10 manns sem fóru akandi norður af suðvesturhorninu og Vesturlandi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í stöðuskýrslu frá samhæfingarstöð almannavarna vegna óveðursins sem gekk yfir landið 10. til 12. desember.

Síðasta sólarhring hafa björgunarsveitir aðstoðað fjarskiptafyrirtæki við að koma á fjarskiptasambandi og orkufyrirtæki við að koma raforkudreifikerfi í lag. Þau verkefni halda áfram næstu daga. Þá hafa björgunarsveitir farið á bæi til að kanna ástand hjá fólki og við dreifingu og uppsetningu varaaflsstöðva hjá bændum. Nú eru björgunarsveitir að aðstoða bændur við að loka húsum og við leit að búfénaði víða á Norðurlandi.

Ekki eru farnar að berast ítarlegar upplýsingar um eignatjón vegna …
Ekki eru farnar að berast ítarlegar upplýsingar um eignatjón vegna veðursins en ljóst er að foktjón hefur orðið víða um land í veðrinu. Ljósmynd/Landsbjörg

Enn fremur kemur fram að aðstæður heilbrigðisstofnana á Norðurlandi hafi verið krefjandi.

Víða voru truflanir á rafmagni á heilbrigðisstofnunum en flestar voru með rafmagn eða varaafl. Verst var ástandið á hjúkrunarheimilinu Dalbæ á Dalvík og á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga en þar var rafmagnslaust í tvo sólarhringa.

Ekki eru farnar að berast ítarlegar upplýsingar um eignatjón vegna veðursins en ljóst er að foktjón hefur orðið víða um land í veðrinu. Þá hefur einnig komið fram að tjón varð á nokkrum stöðum vegna sjávargangs. 

Eins og ítrekað hefur komið fram fór rafmagn af á stórum hluta Norðurlands. Unnið er hörðum höndum að viðgerðum á raforkukerfinu og við að koma því í lag. Ljóst er að það mun taka nokkra daga að koma rafmagnsflutningakerfinu í lag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert