Leit hefst að nýju í birtingu

Björgunarsveitarfólk við Núpá í gærkvöldi.
Björgunarsveitarfólk við Núpá í gærkvöldi.

Hlé var gert á leit í Núpá í Sölvadal í Eyjafirði í nótt en vakt hefur verið við ána í alla nótt. Leit hefst að nýju í birtingu, að sögn Sigurðar Sigurðssonar, aðalvarðstjóra í lögreglunni á Norðurlandi eystra. Mjög kalt er á þessum slóðum og er spáð harðnandi frosti í dag. Aðstæður til leitar hafa verið mjög erfiðar frá því leit hófst að unglingspilti sem féll í ána í fyrrakvöld. 

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hversu margir taka þátt í leitinni í dag en að sögn Sigurðar verður staðan metin með morgninum og á hann von á því að leitarsvæðið verði stækkað frá því sem var í gær. 

Pilturinn var ásamt öðrum manni að vinna við stíflu í ánni þegar krapagusa hreif hann með sér. Lögreglunni á Norðurlandi var tilkynnt um slysið laust fyrir klukkan 22 í fyrrakvöld. 

„Aðstæður á vettvangi eru mjög krefjandi og lélegt skyggni á köflum. Vakta þarf ána að hluta því að áin hleður upp krapa sem getur síðan runnið síðan af stað með stuttum fyrirvara og þar með eykst straumurinn í ánni yfir það svæði sem leitað er á. Slíkt gerðist í eitt skipti rétt fyrir klukkan 18 og skapaðist þá ákveðin hætta en góð viðbrögð og viðvaranir urðu til þess að ekki hlaust slys af.

Aðgerðastjórn tók ákvörðun um að draga úr leit í ánni sjálfri í nótt en viðbragðsaðilar verða við leitarstörf við ána í nótt og leit verður áframhaldið í fyrramálið af fullum krafti. Útlit er fyrir að betra veður verði á morgun til leitar,“ segir í færslu sem rituð var á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert