Margir smásigrar unnir í nótt

Starfsmenn RARIK, Rafal, Landsnets og björgunarsveitanna að hreinsa salta ísingu …
Starfsmenn RARIK, Rafal, Landsnets og björgunarsveitanna að hreinsa salta ísingu af tengivirkinu í aðveitustöðinni í Hrútatungu. Af vef Rarik

Starfmenn Rarik á Norðurlandi hafa verið að undanfarna sólarhringa og margir unnið sleitulaust allan sólarhringinn. Þrátt fyrir að enn vanti töluvert upp á að koma rafmagni á í fjórðungnum hafa margir litlir sigrar verið unnir í gærkvöldi og nótt, segir vaktmaður hjá Rarik. „Það var mikil gleði þegar okkur tókst að setja varaafl á stóran hlut Dalvíkur þó svo fyrirtæki séu ekki komin með rafmagn,“ segir hann í samtali við blaðamann mbl.is.

Rafmagn Dalvíkinga kemur frá varðskipinu Þór.
Rafmagn Dalvíkinga kemur frá varðskipinu Þór. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðan þar og annars staðar verður endurmetin með morgninum en búið er að hleypa rafmagni á öll heimili í bænum. Enn eru einhverjir dagar í að viðgerð verði lokið á Dalvíkurlínu. Mögulegt er að skammta þurfi rafmagn. Því er mjög mikilvægt að notendur fari sparlega með rafmagn svo hægt verði að komast hjá skömmtun. 

Nánast allir bæir eru komnir með rafmagn á Heggstaðanesi og Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu en tveir bæir eru enn án rafmagns á Heggstaðanesi og þrír á Vatnsnesinu. Unnið hefur verið að viðgerð undanfarna sólarhringa og viðgerðarmennirnir voru að fara í hvíld í nótt eftir tæplega sólarhringsvakt, segir vaktmaður hjá Rarik á Norðurlandi sem blaðamaður ræddi við á sjötta tímanum í morgun. 

10 staurar brotnir í Öxarfirði

Kortasjá yfir stöðuna á rafmagnsleysi á vef Rarik.
Kortasjá yfir stöðuna á rafmagnsleysi á vef Rarik. Skjáskot af vef Rarik

Reykjaströndin er enn án rafmagns og eins eru smábilanir víðar í Skagafirði. Miklar bilanir eru allt í kringum Akureyri og ekki ljóst hvenær viðgerð lýkur. Megnið af Öxnadal og Hörgárdal er án rafmagns og nánast allur Laxárdalur er án rafmagns og allur Svarfaðardalur.

Tjörnesið er enn úti og í Öxarfirði eru mjög margir án rafmagns er þar eru tíu rafmagnsstaurar brotnir. Melrakkaslétta, norðan við Kópasker, er öll án rafmagns, það er dreifbýlið, en keyrt er á díselvélum á Raufarhöfn. Hið sama á við um Þórshöfn en þar er keyrt á díselstöðvum sem og í Þistilfirði og Bakkafirði. Kelduhverfið er einnig keyrt á varaafli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert