Mokaði út vatni og óþverra

Allt á floti.
Allt á floti. Skjáskot/Gunnar Páll Baldursson

Umtalsvert tjón varð á verkstæði gistiheimilisins Sólseturs á Raufarhöfn er sjór gekk á land í ofsaveðrinu í fyrradag. Gunnar Páll Baldursson, íbúi á Raufarhöfn, deilir myndbandi á Facebook þar sem sjá má húsin á floti í vatnsflauminum.  

Í samtali við mbl.is segir Snæbjörn Magnússon, eigandi Sólseturs og kaupfélagsins, að húsið sé nýtt undir geymslur fyrirtækisins, en þó alltaf kallað verkstæðið. Timbur og ýmis verkfæri hafi eyðilagst í flóðinu, en vatnshæð náði allt að 50-70 sentímetrum þegar mest lét. „Landið liggur töluvert lágt og þegar sjórinn gengur á land yfir grjótgarðinn, þá kemst hann ekki til baka.“

Auk vatnsins barst óhemjumikið af grasi og leðju inn í húsið, sem gerði honum ekki auðveldara fyrir.  Ég er búinn að vera í allan dag að moka út vatni og óþverra,“ segir Snæbjörn en aðspurður segist hann hafa séð um það einn og óstuddur. Tjón á húsinu sjálfu fæst bætt úr hamfarasjóði, en Snæbjörn segir að innbúið sé ótryggt.

Raforkukerfi er enn ekki komið í lag á Raufarhöfn, en díselrafstöðvar sjá íbúum fyrir rafmagni. Snæbjörn segir rafmagnið hafa verið skammtað síðustu daga en að í dag hafi ekki komið til þess, í það minnsta ekki hjá sér.

mbl.is