Sjúkrastofnanirnar einangraðar í tvo daga

Aldís Olga Jóhannesdóttir, svæðisfulltrúi heilbrigðismála á Hvammstanga.
Aldís Olga Jóhannesdóttir, svæðisfulltrúi heilbrigðismála á Hvammstanga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert rafmagn, ekkert net, enginn sími, ekkert tetra-samband og ekkert varasamband. Þetta voru aðstæðurnar á sjúkrahúsinu og heilsugæslunni á Hvammstanga frá þriðjudegi og þangað til í gærmorgun þegar rafmagn kom aftur á. Aldís Olga Jóhannesdóttir, svæðisfulltrúi Heilbrigðisstofnunvar Vesturlands á Hvammstanga, segir að í raun hafi það aðeins verið tilviljun að allt hafi bjargast, en að bregðast þurfi við svo álíka sambandsleysi við sjúkrastofnun geti ekki komið upp að nýju.

Eins og víðar á Norðvesturlandi datt rafmagn út á Hvammstanga á þriðjudaginn í ofsaveðrinu. Í kjölfarið datt út nettenging og símakerfi sem og farsímakerfið og tetra-fjarskiptakerfið, sem notað er af viðbragðsaðilum. Á stofnuninni starfa í heild á bilinu 50—60 manns, en auk heilsugæslunnar eru á sjúkrahúsinu 18 hjúkrunarrými og 2 rými til almennra innlagna.

„Við í rauninni höfðum ekkert til að taka við“

Aldís segir að þau hafi reynt að hafa vaðið fyrir neðan sig og heyrt í Rarik fyrir óveðrið. Þar hafi þau svör fengist að ólíklegt væri að rafmagnið myndi fara af og ef svo gerðist yrði það í stutta stund. En svo datt rafmagnið út og lítið tók við. „Við í rauninni höfðum ekkert til að taka við,“ segir Aldís, en engin aukarafstöð er hjá stofnuninni eða hjá sveitarfélaginu.

Símasamband, tetrasamband og netsamband datt allt út hjá sjúkrastofnununum á …
Símasamband, tetrasamband og netsamband datt allt út hjá sjúkrastofnununum á Hvammstanga í kjölfar rafmagnsleysisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Höfuðljós urðu því að duga í myrkrinu, en Aldís segir að sem betur fer hafi ástand sjúklinganna ekki verið þannig að rafmagnsleysið hafi haft mikil áhrif. Þá var ekki hægt að reka eldhúsið, en sjúkrahúsið er í raun heimili þess fólks sem þar er inni. Fyrr á þriðjudaginn hafði heilsugæslunni verið lokað, en til að tryggja mönnun á sjúkrahúsinu segir Aldís að þau hafi þurft að treysta á björgunarsveitir til að sækja og skutla heim starfsfólki. Það hafi í heildina tekist mjög vel.

„Ekki hægt að ná í lækni“

„Það var margt sem vann með okkur, til dæmis útköll,“ segir Aldís og bætir við að lítið hafi verið um þau meðan rafmagnið var úti. „En það datt allt út, við náðum ekki símasambandi og tetrastöðvarnar. Það var því ekki hægt að ná í lækni,“ segir hún, en björgunarsveitir voru látnar vita að þær þyrftu að koma með fólk á staðinn ef þau vissu af einhverjum sem þyrfti að komast undir læknishendur.

„Það var í raun bara heppni að það varð ekki eitthvað stórkostlegt sem gerðist á þessum tíma,“ segir hún. „Þetta bjargaðist í raun alveg ótrúlega, en er langt í frá að vera eðlilegt ástand eða vinnuumhverfi.“

Aldís segir að bregðast þurfi við þessu ástandi sem fyrst og þar þurfi fyrst og fremst að horfa til þess að hafa vararafstöð. Segir hún að þegar sé komin upp umræða bæði innan Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og innan sveitarfélagsins um það hvort hægt sé að koma upp slíkri varaaflstöð.

Kerfin sem áttu að virka duttu út

Þá segir hún mikilvægt að tryggja betur að tetra-kerfið virki. „Það er kerfi sem á að virka í þessum aðstæðum.“ Nefnir hún líka vandamál sem komu upp varðandi að geta nálgast eldsneyti, en flestar eldsneytisdælur eru rafmagnsdælur. „Þetta er alveg galið,“ segir hún.

Aldís segir að það fólk hafi verið viðbúin veðrinu að miklu leyti, en skerðingin á innviðunum hafi verið eitthvað sem kom öllum á óvart. „Það var ekki hægt að ná fréttum RÚV til dæmis,“ segir hún og játar því aðspurð hvort bæjarfélagið hafi í raun verið einangrað frá umheiminum.

Rafmagn komst aftur á Hvammstanga í gærmorgun, en þegar mbl.is ræddi við Aldísi var það enn flöktandi og hafði dottið tímabundið út nokkrum sinnum yfir daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert