Bannað að keyra hestvagn vegna grænkera

Hestvagn Bettinu er mikið sjónarspil.
Hestvagn Bettinu er mikið sjónarspil. Ljósmynd/Hestvagnar á Íslandi

Bettinu Wunsch, hestakonu með meiru sem hefur mætt með hestvagn fyrir börn í Jólaþorpið í Hafnarfirði síðastliðinn fimm ár, brá í brún þegar hún fékk fréttir í gær þess efnis að nú yrðu takmörk sett á veru hennar í þorpinu. Fleirum var brugðið en Bettinu og hefur fjöldi fólks tekið upp hanskann fyrir hana.

Ástæða takmörkunarinnar er að sögn Bettinu sú að Veganbúðin, sem er í Strandgötu þar sem Bettina og hestarnir aka venjulega framhjá, er mótfallin því að Bettina aki um með hestana á meðan búðin er opin.

Veganlífsstíll, eða á góðri íslensku grænkeralífsstíll, er mótfallinn því að dýr séu notuð manninum til hagsbóta. Grænkerar velja að neyta ekki dýraafurða eða nota þær í öðrum tilgangi og eru margir hverjir andstæðir dýrahaldi eða notkun mannfólks á dýrum. 

„Veganbúðin hélt fund með Jólaþorpinu í gær og eftir það fékk ég fréttirnar,“ segir Bettina.

Hestvagninn í jólabúning og Bettina heldur sjálf um taumana.
Hestvagninn í jólabúning og Bettina heldur sjálf um taumana. Ljósmynd/Hestvagnar á Íslandi

Ætlar samt að mæta

Bettina var þó á leiðinni í bæinn þegar blaðamaður náði tali af henni. 

„Ég ætla að mæta í Jólaþorpið á eftir en ég á ekki að keyra áður en Veganbúðinni er lokað. Ég ætla nú samt að vera mætt með hestana vegna þess að fólki finnst gaman að sjá þá.“

Bettina segir augljóst að Jólaþorpið tapi á því ef hún mætir ekki á svæðið. „Jólaþorpið sjálft er að biðja mig að mæta því þau vita náttúrlega að þau tapa miklu á því ef ég mæti ekki því þetta er það vinsælt. Þau vilja að ég mæti en ég á ekki að keyra fyrr en Veganbúðin er lokuð.“

Átta búðir sendu tölvupóst til stuðnings Bettinu

Bettina segir sárast að einhverjir telji að um dýraníð sé að ræða. 

„Eitt það leiðinlegasta sem hægt er að segja um mig er að ég fari illa með dýrin. Þá segi ég hingað og ekki lengra því það er nokkuð sem ég þoli ekki, það er alveg á hreinu. Ég myndi ekki standa í þessu ef þetta færi illa með hestana mína.“

Ljósmynd/Hestvagnar á Íslandi

Fjöldi fólks hefur tekið upp hanskann fyrir Bettinu, þar á meðal aðrir verslunareigendur á Strandgötu, en átta verslanir þar hafa sent Jólaþorpinu tölvupóst til stuðnings Bettinu, sem er orðlaus yfir því. 

„Ég þekki ekki allt fólkið sem hefur stutt mig. Mér finnst það æðislegt, ég sat bara heima og felldi tár yfir því í gær,“ segir Bettina og hlær. „Ég veit að það er fullt af fólki sem kemur ár eftir ár og þekkir hrossin mín svo mér finnst þetta bara magnað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina