Fimm heimili enn án rafmagns

Starfsmenn RARIK að störfum á Skaga.
Starfsmenn RARIK að störfum á Skaga. Ljósmynd/Rósant Guðmundsson

RARIK telur að heimili sem ekki hafa verið rýmd og eru án rafmagns séu fimm talsins. Þetta kemur fram í stöðuyfirliti frá almannavörnum. 

Kópaskerslína er komin í rekstur að Silfurstjörnunni. Einhverjar truflanir urðu hjá notendum á meðan verið var að frátengja varaafl á Lindarbrekku og Kópaskeri. Enn eru keyrðar varaaflsvélar á Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafirði. Búið er að tengja aðra vél við á Raufarhöfn þannig að ekki þarf að skammta rafmagn þar. Flestir á þessu svæði eru með rafmagn.

Töluvert mikið er af brotnum staurum og slit á línum á Tjörnesi og er viðgerð hafin. Í Fnjóskadal eru enn einhverjar bilanir en þeir sem þurfa hafa fengið varaafl. Í
Grýtubakkahreppi er lína frá Nolli að Sveinbjarnargerði öll niðri og varaafl er keyrt þar sem þörf er á.

Vegna bilunar á Dalvíkurlínu er rafmagn á Árskógssand nú tekið frá Rangárvöllum sem veldur lágri spennu og litlum spennugæðum.


Í Hrísey er keyrt á varaafli vegna bilunar á Dalvíkurlínu. Vesturhluti Svarfaðardals, innri hluti dalsins og Skíðadalur eru komnir með rafmagn. Reisa þarf brotinn staur og huga að ísingu áður en hægt er að setja inn svæðið sem enn er rafmagnslaust. Um er að ræða 12 spennistöðvar.

33 kV lína frá Dalvík til Árskógssands er slitin og mikið sliguð og eins er mikill halli á staurum.

mbl.is