Fólk á að vera filterslaust

„Ég hélt að bókin væri einhvers konar endapunktur fyrir mig …
„Ég hélt að bókin væri einhvers konar endapunktur fyrir mig en hef áttað mig á því að hún er upphafspunktur; hún er upphafið að einhverju miklu, miklu stærra,“ segir Björgvin Páll. Ljósmynd/Line Thorø Østerby

Handboltamaðurinn Björgvin Páll Gústavsson fellir grímuna í bók sinni Án filters. Bókin hefur breytt lífi hans til hins betra og markar upphaf að öðruvísi framtíð.

Björgvin þykir litríkur og líflegur inni á velli, töffari með sitt síða ljósa hár, ennisband og húðflúraða handleggi. Hann fann sig snemma í íþróttum og þakkar fyrir það því litlu hefði mátt muna að hann veldi aðra og verri braut.

Þessi 34 ára markmaður, eiginmaður og faðir vill ekki lengur vera táknmynd hins harða handboltamanns heldur vill hann sýna sinn innri mann, bæði innan vallar og utan. Meira að segja síða villta hárið hefur fengið að fjúka.

Faldi kvíðann

Björgvin átti erfiða æsku og þurfti snemma að axla mikla ábyrgð. Móðir hans baslaði með börnin og hafði sjálf sinn djöful að draga, þótt hún hafi gert sitt besta. Björgvin var baldinn í skóla og lenti gjarnan í slagsmálum og segist hann auðveldlega hefðu getað leiðst út á braut fíkniefna ef boltaíþróttir hefðu ekki tekið hann föstum tökum.
Hegðunarvandamálin voru mörg og sem barn hafði Björgvin verið vistaður um tíma á BUGL en segist í raun aldrei hafa fengið greiningu.

„Ég brotnaði niður og grét og þá fannst mér ég …
„Ég brotnaði niður og grét og þá fannst mér ég horfa á mig eins og utan frá. Ég áttaði mig á að vandamálin voru miklu frekar andleg en líkamleg,“ segir Björgvin. Ljósmynd/Line Thorø Østerby


„Ég var handboltagaurinn og vandræðaunglingurinn og ég þurfti að velja á milli þessara tveggja. Handboltinn fór að taka meira pláss og þá minnkuðu vandamálin smátt og smátt,“ segir hann.

Blessun að brotna niður

Í bók sinni, sem hann vann með Sölva Tryggvasyni, er áhrifamikil lýsing á því þegar Björgvin brotnar saman seint að kvöldi á kirkjutröppum í Köln. Á þessari stundu, þegar Björgvin upplifði sig á botni tilverunnar, ákvað hann að taka á sínum málum. Það varð ekki aftur snúið.
„Eins óskýrt og það var á þessum tímapunkti var það svo skýrt á sama tíma. Þótt ég hefði oft komið á þennan stað áður fannst mér aðstæðurnar svo óraunverulegar og ég upplifði að mér stafaði ógn af hryðjuverkum. Það var eitthvað brenglað að gerast í höfðinu á mér og þá áttaði ég mig á því að það hlyti eitthvað að vera að; þetta var svo fjarlægt raunveruleikanum. Ég brotnaði niður og grét og þá fannst mér ég horfa á mig eins og utan frá. Ég áttaði mig á að vandamálin voru miklu frekar andleg en líkamleg,“ segir Björgvin, en áður hafði hann verið greindur með vefjagigt og var hann oft með verki og önnur sérkennileg einkenni.

Skilaboðunum rignir inn

Bókin kom út í október og vakti strax mikla athygli. Hún fór efst á lista yfir mest seldu ævisögur landsins og hefur haldist þar síðan.
„Það sem gleður mig mest er að vita að boðskapurinn kemst til skila. Ég hef fengið ótrúlega mikið af skilaboðum og hafa þau gefið mér gríðarlega orku í að vinna áfram með þetta allt saman. Ég held að minn tilgangur sé að vera fyrirmynd og hjálpa öðrum að líða vel,“ segir Björgvin og segir að skilaboðin séu um þrjú hundruð; frá foreldrum, ungmennum og börnum.
„Ég bjóst í raun aldrei við þessum viðbrögðum. Ég hef alltaf verið umkringdur handboltaáhugafólki en þarna kom allt annar vinkill inn í líf mitt og samskipti. Ég hef fengið ótrúlega innihaldsrík og djúp skilaboð og þá áttaði ég mig á þörfinni fyrir svona bók og að opna á umræðuna. Að tala um hlutina. Það er mikilvægt að gera börnum grein fyrir að lífið er ekki fullkomið; það er ekki eins og það lítur út á Instagram.“

Að vera góður faðir og góð manneskja finnst Björgvini mikilvægara …
Að vera góður faðir og góð manneskja finnst Björgvini mikilvægara en að vera góður í handbolta. Hér er hann ásamt konu sinni Karen Einarsdóttur og börnunum, Emmu sex ára og tveggja ára gömlum tvíburunum Einari Leó og Emilíu. Ljósmynd/Line Thorø Østerby

Vertu svolítið filterslaus

Eftir ellefu ár í atvinnumennsku erlendis ætlar Björgvin að koma alkominn heim næsta sumar. Hann segist vonandi eiga tíu góð ár eftir í boltanum en einnig hyggst hann taka til hendinni við að hjálpa fólki í vanda.
„Ég ætla ekki bara að vera gaurinn sem tjáir sig á netinu heldur langar mig að stuðla að breytingum og gera eitthvað.“

„Fólk sem les bókina mína tengir við mjög margt og hún opnar ákveðnar víddir. Draumurinn er að ég sé kannski að stoppa einhverja af svo þeir þurfi ekki að lenda á botninum. Ég hefði þurft á því að halda að grípa fyrr inn í mín mál, áður en ég lenti á botninum í Köln,“ segir hann og nefnir að bókin hafi í raun verið upphafið að heilunarferli hjá sér.

Björgvin segir tilgang bókarinnar vera að sýna fólki að það þurfi ekki að þykjast.
„Fólk á að vera filterslaust. Þá er ég ekki að meina að þú megir ekki pósta fallegri mynd af þér á samfélagsmiðlum. En vertu svolítið filerslaus og segðu fólki hvernig þér líður. Ef þú ert fimmtán ára og mamma þín spyr hvernig þér líður; ekki fela það. Við þurfum að vera aðeins hreinskilnari og opnari hvert við annað,“ segir Björgvin.

Björgvin ætlar sér meira en að spila handbolta í framtíðinni.
„Ég hélt að bókin væri einhvers konar endapunktur fyrir mig en hef áttað mig á því að hún er upphafspunktur; hún er upphafið að einhverju miklu, miklu stærra. Mitt draumastarf í framtíðinni mun felast í að hjálpa öðrum.“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 
 

 
 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »