Með sex skammbyssur í kassa

AFP

Fimm menn voru í Héraðsdómi Suðurlands í vikunni dæmdir í fangelsi fyrir peningaþvætti, fíkniefnasölu og framleiðslu auk fleiri brota. Sá sem fékk þyngstu refsinguna fékk 15 mánaða dóm, þar af 12 mánuði skilorðsbundna. Hann var ákærður fyrir peningaþvætti sem nemur tæpum 24 milljónum króna á nokkrum mánuðum; hafa verið með 4,4 kg af marijúana í sinni vörslu þegar lögreglan leitaði á heimili hans og sex skammbyssur í plastkassa án þess að vera með skotvopnaleyfi. Auk fleiri brota.

Maðurinn vildi ekki kannast við peningaþvætti heldur hefði hann verið að kaupa gjaldeyri í greiðaskyni fyrir ótiltekið fólk, sem hefði beðið hann um það. Hefði hann gert þetta í góðmennsku sinni og væri almennt frekar góður strákur. Hann játaði hins vegar vörslu á nokkrum kílóum af kannabisefnum sem voru ætluð til sölu og dreifingar.

Félagar hans fengu mislangan dóm. Tveir fengu tólf mánaða dóm en níu mánuðir eru skilorðsbundnir. Þriðji fékk níu mánaða dóm, þar af sex mánuði skilorðsbundna, og sá fjórði var dæmdur í sex mánaða fangelsi en þarf að sitja inni í þrjá mánuði.

Nokkur hundruð kannabisplöntur voru gerðar upptækar í málinu en þeir höfðu ræktað kannabis í sumarbústað á Suðurlandi.

Einn þeirra sem voru handteknir í sumarbústaðnum smekkfullum af kannabis kvaðst ekkert hafa tekið eftir fíkniefnunum og eins áttu þeir erfitt með að gera grein fyrir fjármunum sem þeir voru með í fórum sínum án þess að stunda vinnu. Komu fram skýringar eins og að einn sagðist hafa selt hjólhýsi en allt að einu haft hjólhýsið áfram og hefur auk þess ekki getað upplýst neitt um kaupendur hjólhýsisins.

Dómurinn í heild

mbl.is