Sló konu ítrekað í andlitið

Lögreglumaður að störfum.
Lögreglumaður að störfum. mbl.is/Eggert

Um fimmleytið í nótt var tilkynnt um líkamsárás á veitingahúsi í miðborginni. Maður sló konu ítrekað í andlitið og var hann handtekinn og færður á lögreglustöð.

Upp úr klukkan hálfníu í gærkvöldi voru afskipti höfð af pari vegna slagsmála í bifreið við verslunarmiðstöð í Breiðholti. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu grunaður um líkamsárás, eignaspjöll og vörslu fíkniefna.

Með eina milljón í reiðufé 

Ofurölvi maður var handtekinn við veitingahús í Háaleitis- og Bústaðahverfinu laust fyrir klukkan eitt í nótt.  Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu. Þar kom í ljós að hann hafði í vösum sínum rúmlega eina milljón króna í reiðufé, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Lögreglumenn ætluðu að hafa afskipti af ökumanni bifreiðar á gatnamótum við Snorrabraut, rétt fyrir miðnætti, og tendruðu blá neyðarljós. Ökumaðurinn ók þá af stað og inn í götu á móti einstefnu. Ökumaðurinn er sagður réttindalaus, þ.e. hefur aldrei öðlast ökuréttindi. 

Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt. mbl.is/​Hari

Ekið á ljósastaur og út af 

Tilkynnt var um bifreið í Mosfellsbæ upp úr klukkan hálffimm í nótt sem ekið var á ljósastaur og síðan út af. Ekki urðu slys á fólki. Bifreiðin er óökufær og Orkuveitunni var tilkynnt um staurinn.

Bifreið var stöðvuð í Grafarvogi um hálftvöleytið í nótt. Maður og kona voru handtekin grunuð um ölvun við akstur, fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu og ofbeldi gegn opinberum starfsmanni. Þau voru vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Töluvert var einnig um það í nótt að ökumenn væru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert