Veganbúðin gerð að blóraböggli

Hestvagn Bett­inu Wunsch hefur valdið ágreiningi.
Hestvagn Bett­inu Wunsch hefur valdið ágreiningi. Ljósmynd/Hestvagnar á Íslandi

„Við höfum ekkert á móti þessari konu, hestafólki eða bændum. Þetta er allt gott fólk sem auðvitað kemur fram við dýrin sín af virðingu en það er bara þetta kerfi sem fólk er að mótmæla, það að dýr séu afþreying. Það er ekki við einstaklinga að sakast, þetta er bara kerfisbundið,“ segir Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir, einn af eigendum Veganbúðarinnar. 

Fyrr í dag ræddi mbl.is við hestakonu sem þótti Veganbúðin vega illa að sér. Hún hefur mætt með hestvagn í Jólaþorpið í Hafnarfirði síðastliðin fimm ár en fær nú ekki að aka með vagninn fyrr en Veganbúðin, sem stendur við Strandgötu þar sem vagninn leggur gjarnan leið sína, er lokuð. 

Sæunn segir að ákvörðunin hafi alfarið verið í höndum Hafnarfjarðarbæjar. Veganbúðin hafi verið gerð að blóraböggli fyrir ákvörðunina í stað þess að bærinn sendi frá sér upplýsingar um hana. Veganbúðin hafi einfaldlega komið ábendingum til bæjarins vegna hestanna í Jólaþorpinu. 

„Í Jólaþorpinu eru hestar að draga hestvagn allan daginn á meðan þorpið er opið. Svo standa hestar þarna líka í litlu gerði. Þegar búðin okkar hefur verið opin hafa viðskiptavinir okkar ítrekað bent á að þetta sé kannski tímaskekkja, að hestar séu ekki æskileg afþreying þegar hægt er að skemmta sér á annan hátt.“

Ávallt er mikið um að vera í Jólaþorpinu í Hafnarfirði.
Ávallt er mikið um að vera í Jólaþorpinu í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert

Hestarnir verði fyrir miklu áreiti

Ábendingar sem viðskiptavinirnir komu áleiðis voru meðal annars þær að slæmt sé fyrir hesta að ganga hring eftir hring á malbiki.

„Fyrir þá sem standa í gerðinu þá er oft rosalegur kuldi og þeir geta ekki hreyft sig mikið þannig að þeir ná ekki að halda á sér hita og þeir verða fyrir miklu áreiti frá fólkinu þarna í kring,“ segir Sæunn. 

Eigendur Veganbúðarinnar ákváðu því að hafa samband við Hafnarfjarðarbæ. 

„Við sendum bænum ábendingu um þessar athugasemdir sem við höfum fengið. Þau hittu í gær einn af eigendum búðarinnar þar sem þetta var rætt og farið yfir þetta í rólegheitunum. Þau sögðust í raun vera frekar sammála og voru búin að hugsa þetta í svolítinn tíma, hvort það væri ekki hægt að finna einhverja nýja hefð í staðinn fyrir þessa,“ segir Sæunn.

Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Bærinn stendur á bak við ákvörðunina

Að hennar sögn ákvað bærinn í kjölfarið að draga úr tíðni ferða hestanna til þess að hægt væri að aðlaga sig að breyttum tímum. 

„Það var alfarið ákvörðun bæjarins, við bara sendum þeim ábendingu. Við sem eigum búðina vitum að bærinn stendur algjörlega á bak við þetta og það sem þau hafa sagt við okkur bendir í raun bara til þess að þau hafi verið að bíða eftir tækifæri til þess að taka þetta skref,“ segir Sæunn.

Hún tekur fram að Veganbúðin hafi ekki ásakað neinn um dýraníð en því hefur verið haldið fram og hafa aðstandendum Veganbúðarinnar borist hótanir vegna þess.

„Þessi umræða er komin svolítið víða á netinu og er rosalega hörð og óvægin. Það var ákveðin málamiðlun að draga úr ferðum og leyfa þetta eftir lokun búðarinnar en það breytir því ekki að skoðun grænkera er sú að þetta ætti að tilheyra fortíðinni. Þetta snýst ekki um það að sjá þetta gerast heldur það að vita af því að það særir fólk.“

mbl.is