Steypan í „Holu íslenskra fræða“

Framkvæmdir við Hús íslenskra fræða eru nú í fullum gangi. Búið er að steypa grunn þess rúmum sex árum frá því að fyrsta skóflustungan var tekin á sínum tíma. Halda mætti að álög séu á húsbyggingum á svæðinu því ferlið var svipað við byggingu Þjóðarbókhlöðunnar sem stendur skammt frá. 

Það var í lok janúar árið 1978 sem fyrsta skóflustungan að Þjóðarbókhlöðunni var tekin en húsið var svo ekki tekið í notkun fyrr en sextán árum síðar. Þá hafði farið fram mikið stapp um fjármögnun byggingarinnar og ýmsir snúningar verið teknir á Alþingi til þess að koma framkvæmdunum inn á fjárlög. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að helmingur þeirrar upphæðar sem veitt yrði í framkvæmdina árið 1990 kæmi úr sjóðum Happadrættis Háskólans vakti t.a.m. hóflega hrifningu yfirstjórnar skólans.

Miðopna Morgunblaðsins annan desember 1994 var lögð undir opnun Þjóðarbókhlöðunnar. …
Miðopna Morgunblaðsins annan desember 1994 var lögð undir opnun Þjóðarbókhlöðunnar. Þar er sagt frá því að um eitt þúsund manns hafi sótt opnunina. Skjáskot

Gjörningar og aðrir notkunarmöguleikar

Þegar ljóst varð að framkvæmdum við Hús íslenskra fræða, eða Hús íslenskunnar eins og það er stundum kallað, yrðu settar á ís vakti það nokkuð sterk viðbrögð. Ungir vinstri grænir voru afar ósáttir við aðgerðaleysið og um haustið 2013 skoruðu þeir á unga Sjálfstæðismenn í vestfirsku þjóðaríþróttinni mýrarbolta. Tekist yrði á í grunninum. Það væri það „menningarlegasta“ sem hægt væri að gera í stöðunni, eins og stóð í áskoruninni. Þó augljóst sé að slíkur viðburður myndi vekja mikla og verðskuldaða athygli varð þó ekkert af rimmunni. Fróðlegt verður að sjá hvort ríkisstjórn flokkanna endist lífið til að klára húsið í sameiningu.

Þegar nokkur athafnaskáld tóku sig til og efndu til samkeppni um ljótasta orð móðurmálsins í lok árs 2013 þótti við hæfi að tilkynna það við „Holu íslenskra fræða“ og er það elsta heimildin á mbl.is um þetta nýja nafn sem festist við reitinn. Ef vilji var til þess að auka á dramatíkina var talað um „Gröf íslenskra fræða“ en holan virðist hafa haft vinninginn. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var það orðið geirvarta sem hafði vinninginn í þessum gjörningi.

Sumir sáu þó tækifærin sem lágu í holunni og einn þeirra var Björn Jón Bragason sem þá ritstýrði vikublaðinu Reykjavík. Í leiðara blaðsins á útmánuðum 2016 stakk hann upp á því að í stað fræðasetursins yrðu reistar stúdentaíbúðir í grunninum. Árnastofnun fengi í staðinn Safnahúsið við Hverfisgötu til sinna umráða. 

„Stúd­entag­arðar á þess­um stað mættu gjarn­an vera nokkuð há bygg­ing, allt að fimm hæðir. Í raun­inni er vart hægt að hugsa sér heppi­legri stað fyr­ir íbúðir stúd­enta og þarna yrði það raun­hæf­ur kost­ur þeirra margra að vera án bíls sem myndi létta á bíla­stæðavand­an­um við Há­skól­ann og spara stúd­ent­um kostnað,“ reifaði Björn Jón. 

Líklega hefur engin hola átt jafn stóran sess í þjóðarsálinni …
Líklega hefur engin hola átt jafn stóran sess í þjóðarsálinni og Hola íslenskra fræða. Landsbókasafn sést í bakgrunni það var þó ekki þekkt hola þar sem grunnur var steyptur í húsið nokkuð snemma í ferlinu. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is