Stöðvuðu bruggun vegna óveðursins

Kaldi þurfti að stöðva bruggun frá þriðjudegi til fimmtudags vegna …
Kaldi þurfti að stöðva bruggun frá þriðjudegi til fimmtudags vegna veðurs. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Bruggsmiðjan Kaldi Brewery þurfti að hætta bruggun tímabundið á meðan ofsaveðrið fór yfir landið í síðustu viku. 

Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kalda, segir það þó mikla mildi að ekki hafi farið verr, en ástandið var að mestu stöðugt við Ársskógssand þar sem brugghúsið er að sögn Agnesar. 

„Við sluppum 99%. Á þriðjudeginum urðum við að stoppa bruggun og átöppun. Við áttum að brugga líka um nóttina, sem sagt aðfaranótt miðvikudags, en við urðum að sleppa því þannig að þetta var kannski einn og hálfur sólarhringur. Við hættum að brugga á þriðjudeginum og getum byrjað aftur á fimmtudagsmorgni,“ segir Agnes. 

„Við sem sagt sendum vörur frá okkur á mánudeginum og síðan ekkert fyrr en á fimmtudaginn. Við erum alltaf vön að losa af okkur vörur einu sinni á dag.“

Agnes segir það vera áhættusamt að hefja bruggun þegar hætta er á að brugghúsið verði rafmagnslaust. Það myndi í rauninni þýða að öll framleiðslan eyðilegðist. 

„Við vorum svo heppin hér á Ársskógssandi að við vorum með rafmagn meira og minna. Þetta var í rauninni bara þriðjudagurinn þegar það var að fara af. Þetta var þó nokkuð stöðugt. Við hefðum í rauninni hvort sem er ekki getað unnið vegna veðurs, það var ekki hægt að komast almennilega að húsinu og þannig, segir Agnes.“

Hún segir að tjónið af framleiðslustöðvuninni sé líklega ekki verulegt. „Það verður bara unnið á nóttunni í staðinn. Maður hefur heyrt svo ljótar sögur að maður getur ekki sagt annað en að þetta sé bara ekkert mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert