Þakkar fyrir kolaketilinn og olíulampa

Aðalgeir Egilsson bóndi og veðurathugunarmaður á Mánárbakka.
Aðalgeir Egilsson bóndi og veðurathugunarmaður á Mánárbakka. Ljósmynd aðsend

Allir bæir á Tjörnesinu hafa verið án rafmagns frá því fyrir hádegi á þriðjudag og er því komið á sjötta sólarhringinn án rafmagns þar og orðið ansi kalt í húsum. Aðalgeir  Egilsson bóndi á Mánárbakka segist þakka sínum sæla fyrir kolaketilinn og steinolíulampa.

Það var ekkert byrjað að gera við rafmagnið hér fyrr en í gær og í dag þannig að ekki er vitað hvenær rafmagn verður komið hér á segir Aðalgeir í samtali við mbl.is. Hann segist vonast til þess að rafmagn komi á í kvöld eða nótt en það hafi svo sem verið sagt áður en nokkrir rafmagnsstaurar eru brotnir á Tjörnesinu. 

Spurður hvort hann sé með dísilrafstöð svarar hann því neitandi. „Ég hef nú bara kynt kolaketilinn. Ég er orðinn það fullorðinn að ég vildi ekki láta taka hann burtu eins og margir gerðu á sínum tíma. Þeir brutu skorsteinana niður og settu plötu yfir. Ég hef haft vel hlýtt hjá okkur og við þurfum því ekki að kvarta. Svo eigum við nóg af steinolíulömpum og olíu,“ segir Aðalgeir sem er kominn á níræðisaldur. 

„Maður er bara kominn í fortíðina eins og sést á myndinni,“ segir Aðalgeir og hlær en á myndinni sést Aðalgeir bera eldivið í lurka-ketilinn í gömlum heypoka.

Hann segist vita af því að það sé orðið ansi kalt hjá ýmsum á öðrum bæjum á Tjörnesinu og er  fjöldahjálparstöð starfrækt í félagsheimilinu Sólvangi á Tjörnesi en þar var boðið upp á súpu og brauð í hádeginu. Þar situr fólk í hlýjunni en búið er að setja þar upp dísilrafstöð. 

Í gær kom fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, þar sem vísað var í Rarik, að fjöldi heimila sem ekki hafa verið rýmd og eru án rafmagns séu um fimm talsins. Aðalgeir segir að þetta geti bara ekki verið og vel megi bæta 1 fyrir framan þessa fimm. Fleiri bændur hafa haft samband við mbl.is og segja að þetta geti hreinlega ekki verið því bæirnir séu mun fleiri. 

Íbúar á Mánárbakka eru svo sem ekki óvanir rafmagnsleysi því það eru rúm 55 ár síðan rafmagn kom þangað fyrst, 1. apríl 1964.

Horft yfir Tjörnesið - sjá má Mánárbakka á myndinni.
Horft yfir Tjörnesið - sjá má Mánárbakka á myndinni. mbl.is/Þorgeir Baldursson
mbl.is