Tjónið nemur tugum eða hundruðum milljóna

Starfsmenn RARIK hafa unnið hörðum höndum undanfarna daga við viðgerðir.
Starfsmenn RARIK hafa unnið hörðum höndum undanfarna daga við viðgerðir. Ljósmynd/Arnar Valdimarsson

Fjárhagslegt tjón RARIK vegna óveðursins sem gekk yfir landið hleypur á tugum eða hundruðum milljóna króna. Þar að auki er samfélagslegur kostnaður gífurlegur.

Þetta segir Helga Jóhannsdóttir, formaður neyðarstjórnar RARIK. „Við erum að keyra á varavélum ennþá og á meðan við erum að því eykst kostnaðurinn,“ segir hún.

Svo til öll heimili sem bráðþurfa á rafmagni að halda eru komin með rafmagn. Töluverður fjöldi notenda er á varaafli og vill RARIK losa þá við það eins fljótt og auðið er.

Ljósmynd/Arnar Valdimarsson

Varðskipið Þór hefur útvegað Dalvík og nærsveitum varaafl og mun það áfram liggja við bryggju í bænum þar til búið er að gera við Dalvíkurlínu. Vonast er til að því verkefni ljúki um miðja þessa viku.

Viðgerðir á raflínum og rafmagnsstaurum eru í fullum gangi fyrir norðan. Um 200 heimili voru enn án rafmagns í gær en nú er staðan sem betur fer önnur. Rafmagnið kom aftur á í Öxnadal og Hörgárdal, auk þess sem Svarfaðardalurinn er næstum allur kominn inn. „Þetta tók sinn tíma, eins og alltaf gerist, en þetta gekk vel. Menn eru að vinna áfram á fullu í dag og næstu daga,“ segir Helga.

Ljósmynd/Arnar Valdimarsson

Hún tekur fram að á meðan varaaflskeyrsla er í gangi, ásamt viðgerðum á línum, sé ástandið viðkvæmt. Stundum þarf að taka rafmagnið af hjá viðskiptavinum og setja það inn aftur. Von er á truflunum alla vikuna.

Laust fyrir klukkan átta í morgun sló út í Hrútatungu vegna truflunar hjá Landsneti og öll Húnavatnssýslan fór út, auk þess sem rafmagn fór af í Búðardal, á Fellsströnd og Skógarströnd. Rafmagnið kom aftur inn klukkan 8.17 fyrir norðan og komst aftur á í Dalabyggð laust fyrir klukkan níu.

mbl.is

Bloggað um fréttina