Æsingur yfir lífskjarasamningsmáli í þinginu

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði að stjórnarandstaðan væri …
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði að stjórnarandstaðan væri að sýna það að „henni hefði ekki verið treystandi til þess að ná lífskjarasamningunum í hús vegna þess að hún er ekki tilbúin til þess að vinna málin af þeim gæðum og af þeim hraða sem nauðsynleg eru.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var harðlega gagnrýndur af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar í þingsal í kvöld, þegar gengið var til atkvæða um frumvarp ráðherra um almennar íbúðir, en frumvarpið er hluti af þeim loforðapakka stjórnvalda sem liðkuðu fyrir gerð lífskjarasamninganna í vor.

Stjórnarandstæðingar sögðu að frumvarpið væri að fara of hratt í gegnum þingið, það væri ekki tilbúið og gæti haft skaðleg áhrif á viðkvæma hópa á húsnæðismarkaði.

Nokkur æsingur varð í umræðunum þegar Ásmundur Einar sjálfur tók til máls og sagði að stjórnarandstaðan væri að sýna það að „henni hefði ekki verið treystandi til þess að ná lífskjarasamningunum í hús vegna þess að hún er ekki tilbúin til þess að vinna málin af þeim gæðum og af þeim hraða sem nauðsynleg eru.“

„Ég er ótrúlega stoltur af því að tilheyra þeirri ríkisstjórn sem er að klára hér lífskjarasamningana með þessu frumvarpi og með hinum tveimur frumvörpunum sem við vorum að greiða atkvæði um hér áðan,“ sagði Ásmundur Einar.

„Halló, það stendur yfir fundur, róa sig,“ þurfti Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis að segja til þess að fá hljóð í salinn eftir að Ásmundur Einar hafði lokið eldræðu sinni.

Telja málið ekki tilbúið

Áður höfðu nokkrir þingmenn komið í pontu og lýst skoðun sinni á málinu, sem einnig má lesa út úr minnihlutaáliti velferðarnefndar í málinu.

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði málið vera vanbúið eins og fleiri mál Ásmundar Einars. Anna Kolbrún Árnadóttir í Miðflokki sagði málið einnig vanreifað og að það væri „óþolandi flýtir“ á málinu eins og á fleiri málum sem kæmu frá ríkisstjórninni og sér í lagi félags- og barnamálaráðherra.

Halldóra Mogensen sagði að málið hefði ekki verið rætt nægilega …
Halldóra Mogensen sagði að málið hefði ekki verið rætt nægilega í velferðarnefnd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldóra Mogensen Pírati sagði að málið væri að fara í gegn í „flýtimeðferð“ og meirihluti velferðarnefndar hefði ekki tekið neitt tillit til mikilvægra athugasemda hagsmunaaðila við meðferð málsins, en Félagsbústaðir og Brynja, hússjóður Öryrkjabandalags Íslands, er á meðal aðila sem hafa sett fram gagnrýni á ákveðna þætti frumvarpsins.

„Það sem er slæmt við þetta mál er að það gleymist stór hópur, öryrkjar og þeir sem eru hjá Félagsbústöðum,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins. Hann sagði ekki tekið á biðlistum í félagslega húsnæðiskerfinu með þessu frumvarpi.

Halla Signý Kristjánsdóttir þingkona Framsóknarflokk sagði að stjórnarandstaðan væri að stunda leik sem héti „haltu mér, slepptu“ og þó málið hefði komið seint til nefndarinnar, eða í nóvember, hefði það farið í þriggja vikna umsagnarferli og velferðarnefnd hefði tekið á móti „fullt af gestum“ og tekið fyrir þær umsagnir sem bárust.

„Það er leitt að verða vitni að því hér að minnihlutinn geti ekki stutt þær kjarabreytingar sem verkalýðshreyfingin kallaði eftir í sínum lífskjarasamningum, en við erum bara að kvitta undir þær,“ sagði Halla Signý.

„Það var ekki gefið nægt svigrúm til þess að vinna …
„Það var ekki gefið nægt svigrúm til þess að vinna þetta almennilega, um það snýst þetta og mér þykir það verulega miður,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson. mbl.is/Hari

Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar sagði að hún hafnaði því algjörlega að þetta snerist um nokkurn leik. „Það var ekki gefið nægt svigrúm til þess að vinna þetta almennilega, um það snýst þetta og mér þykir það verulega miður,“ sagði Hanna Katrín. Þorsteinn Víglundsson flokksbróðir Hönnu Katrínar sagði að ríkisstjórnin væri í þessu málið að setja félagslega kerfið í „aftursætið“, það væri látið víkja fyrir því sem um samdist í kjarasamningum.

Logi sagði Ásmund Einar ekki starfi sínu vaxinn

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar kom eldheitur í pontu og sagðist ekki ætla að taka „ósmekkleg ummæli“ Ásmundar Einars um stjórnarandstöðuna til sín. Hann sagði að Ásmundur Einar hefði sennilega í þrígang í dag sett „Íslandsmet í lélegum vinnubrögðum“.

Logi Einarsson sakaði Ásmund Einar um að vera ekki starfi …
Logi Einarsson sakaði Ásmund Einar um að vera ekki starfi sínu vaxinn. mbl.is/Hari

„Það er ömurlegt til þess að vita að fólk ætli að slá sig til riddara og tala um lífskjarasamninga þegar veikustu hóparnir í samfélaginu þurfa nú að bíða sennilega í tvö til þrjú ár. Þetta er til skammar og mest til skammar fyrir hæstvirtan ráðherra, sem hefur sýnt að hann er ekki starfi sínu vaxinn,“ sagði Logi.

Frumvarpið gekk til þriðju umræðu eftir atkvæðagreiðslu í kvöld og sátu stjórnarandstæðingar hjá við afgreiðslu þess.

mbl.is