Blæddi eftir fall á hurð

mbl.is/Eggert

Maður féll aftur fyrir sig í verslun í Breiðholti rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi. Talið er að hann hafi fengið flog eða krampa og við það féll hann á hurð með glerrúðu sem brotnaði. Maðurinn fékk sár á hnakka sem blæddi mikið úr. Lögregla var kölluð á staðinn auk sjúkraflutningamanna og var maðurinn fluttur á slysadeild til aðhlynningar. 

Fyrr um kvöldið hafði lögregla afskipti af manni sem var ofurölvi á veitingastað á Seltjarnarnesi. Maðurinn gat ekki greitt fyrir veitingar sem hann hafði neytt og var hann handtekinn sökum ástands og vistaður í fangageymslu lögreglu, grunaður um fjársvik og hótanir gegn lögreglu, að því er segir í dagbók lögreglu. 

Um klukkan tvö í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu á hóteli í miðborginni vegna manns sem neitaði að yfirgefa hótelið, en hann var ekki gestur þar. Lögregla fann ætluð fíkniefni á manninum og var hann kærður fyrir vörslu fíkniefna. 

Þá hafði lögregla afskipti af tveimur ökumönnum sem óku undir áhrifum áfengis og fíkniefna og tveimur ökumönnum sem voru á ótryggðum bílnum og voru skráningarnúmer klippt af. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert